Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 11:17:13 (5380)

2000-03-16 11:17:13# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[11:17]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það kemur mér nú ekki á óvart þó hv. þm. Kristján Pálsson spýtist upp í ræðustólinn með þessum hætti og lesi allt annað út úr orðum manna en sagt var. Ég sagði það aldrei og það var ekkert slíkt í mínum orðum sem sneri að starfsmönnum sem þarna eiga í hlut, að starfið væri niðurlægjandi. Ég nefndi það ósköp einfaldlega ekki og að sjálfsögðu beinist mín afstaða ekki að einstökum starfsmönnum sem þarna eiga í hlut eða út af fyrir sig einstökum fyrirtækjum sem eru þarna í undirverktöku eða öðru slíku. Ég var að tala um hin almennu samskipti í sögulegu ljósi.

Hitt er alveg ljóst og eru það engar nýjar fréttir og ég geri ráð fyrir því að þeir af starfsmönnum á Keflavíkurflugvelli sem fylgst hafa með þjóðmálaumræðum á Íslandi á umliðnum árum og áratugum viti það vel að ég hef þá afstöðu í þessu máli að ég vil losna við erlendan her úr landinu. Og ég vil undirbúa það þannig að það verði mögulegt, m.a. með því að efla aðra atvinnustarfsemi í staðinn, m.a. með því að reyna að ná því fram að draga úr þessum umsvifum og að við sem heild, þjóðarbúið og efnahagsbúskapur þess og líka þetta svæði sem í hlut á, verði í minna og minna mæli háð þessari atvinnustarfsemi, að annað komi í staðinn þannig að sá draumur okkar mjög margra geti ræst sem ég hygg nú að á löngum tímabilum hafi verið von a.m.k. hálfrar þjóðarinnar ef ekki meira, þ.e. að hún gæti aftur búið í herlausu landi, að það geti orðið sem átakaminnst og haft sem minnsta röskun í för með sér þegar það gerist. Ég trúi því að það muni gerast og er eiginlega sannfærður um að það. Spurningin er bara um tíma því að það hlýtur að fara svo að fyrr eða síðar vaxi upp nægilega öflug kynslóð í landinu sem á sér þann draum að landið sé án erlendrar hersetu, og að hún nái því fram. Ég spái því að við munum mörg lifa það.