Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 11:19:21 (5381)

2000-03-16 11:19:21# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[11:19]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað þarf hv. þm. ekkert að undrast að ég spýtist upp í ræðustól eins og hv. þm. orðaði það. Það er út af fyrir sig mjög eðlilegt að menn rjúki á fætur og reyni að fá skýringar á því hvað verið sé að meina með þessari síbylju sem er reyndar búin að ganga yfir í marga áratugi. Þetta er ekkert að byrja en það er eins og því ætli ekkert að linna að menn verja málflutning sinn gegn hersetunni með því að niðurlægja þá sem starfa fyrir herinn. Það er niðurlægjandi að græða á því að vinna fyrir herinn. Það hefur alla tíð verið punkturinn í málflutningi vinstri manna að það að græða á hernum, þ.e. hinn svokallaði hergróði, sé eitthvað verra en að græða á öðrum rekstri. ,,Græða á erlendri hersetu``, sagði hv. þm. áðan. Það er miklu verri gróði heldur en annar gróði. Þess vegna hlýtur það að ná yfir alla sem eru að vinna fyrir herinn hvort sem það eru verktakar eða venjulegt starfsfólk. Þess vegna hlýtur að vera nauðsynlegt að fá fram hvað hv. þm. og flokkur hans sé í raun að meina með þessum málflutningi.

Ég vil líka minna á að þetta eru mjög mikil viðskipti og skipta verulega miklu máli fyrir þjóðarbúið, þ.e. 10 milljarðar. Það kemur fram í greinargerð með þessu ágæta frv. utanrrh. sem er að mínu áliti mjög nauðsynlegt að 10 milljarðar koma inn í erlendum gjaldeyri til þjóðarbúsins, sem er um 1,4% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar, vegna þeirra viðskipta og starfs sem fram fer hjá varnarliðinu. Mér fyndist að hv. þm. yrði maður að meiri ef hann hætti þessum árásum á fólk sem vinnur hjá varnarliðinu.