Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 11:30:21 (5384)

2000-03-16 11:30:21# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[11:30]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði um tilgang þessa frv. Hann er mjög einfaldur. Tilgangurinn er sá að setja skýran lagaramma utan um stjórnsýslu á varnarsvæðunum og samskiptin við varnarliðið. Margt í framkvæmd varnarsamningsins síðustu áratugi hefur byggst á venjum og hefðum sem voru taldar fullnægjandi á þeim tíma. En á undanförnum árum hefur margt breyst og við höfum þróað og sett á fót nýtt fyrirkomulag til að tryggja samkeppni og jafnræði í viðskiptum við varnarliðið og til að gefa fleirum tækifæri til að koma að þeim viðskiptum. Þess vegna er mikil þörf á því að setja grundvallarákvæði þar að lútandi í lög. Þetta er aðalástæðan.

Að því er varðar bráðabirgðaákvæðið þá er ljóst að samkvæmt samningi við Bandaríkjamenn njóta tvö fyrirtæki á Keflavíkurflugvelli sérréttinda til tiltekins tíma, þ.e. Íslenskir aðalverktakar og Keflavíkurverktakar. Þess vegna þurfti að taka það fram.

Hv. þm. talaði um það að samningurinn sem gerður var hefði verið óskýr. Hann er að okkar mati ekki óskýr. Hins vegar eigum við í deilu við Bandaríkjamenn um skilning á þeim samningi. Það liggur alveg ljóst fyrir og það er skylda okkar að gæta íslenskra hagsmuna samkvæmt þessum samningi. Við erum ekki að gæta hagsmuna tiltekinna fyrirtækja. Við erum að gæta íslenskra hagsmuna í samræmi við þennan samning og okkur ber að gera það og ef við gerðum það ekki þá værum við að bregðast skyldum okkar.