Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 11:45:18 (5388)

2000-03-16 11:45:18# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[11:45]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Það hefur komið fram að rétt væri í sambandi við tiltekið mál að bíða eftir því að tilteknir dómar féllu í Bandaríkjunum. Ég vil minna á að bandarískir dómstólar hafa lögsögu yfir bandarískum borgurum og bandarískum fyrirtækjum og hafa ekkert gildi hér á Íslandi. Okkur ber að sjálfsögðu að halda á okkar málum og rétti okkar með þeim hætti sem við teljum skylt og rétt. Það erum við að gera í þessu frv. Við erum að ítreka þann skilning sem við höfum á ýmsum málum, m.a. því máli sem mest hefur verið rætt um. Hv. þm. Gísli S. Einarsson spurði um hvort ég mundi beita mér fyrir því að samningar fái að renna sitt skeið.

Með frv. er á engan hátt verið að grípa inn í gerða samninga. Það er ekki ætlunin að gera það. Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir í umræddu máli að við teljum og höfum alltaf talið að það fyrirtæki sem hér hefur verið rætt um uppfylli ekki tiltekin skilyrði. Það er ekkert nýtt. Og af því að vitnað var í eitthvert fréttabréf Eimskipafélags Íslands, sem ég hef því miður ekki séð en hér var vitnað í, um að beina því til íslenskra stjórnvalda að þau beiti sér í þessu máli, þá hafa íslensk stjórnvöld beitt sér í málinu lengi vegna þess að það er skoðun okkar að Bandaríkjamenn hafi ekki staðið við samningsskuldbindingar sínar og ég er margbúinn að ítreka það í máli mínu að það sé skylda okkar að sjá til þess að bæði Bandaríkjamenn og aðrir sem við semjum við standi við samningsskuldbindingar sínar á sama hátt og það er skylda okkar að Norðmenn og Rússar standi við samningsskuldbindingar sínar í Smugunni, svo eitthvað sé nefnt. Til þess eru alþjóðlegir samningar og auðvitað ber að standa við þá. Ég sagði að það væri vegna þess að við vildum standa á íslenskum hagsmunum.

Nú er alveg ljóst að öll fyrirtæki sem vilja koma að þessum viðskiptum geta breytt málum sínum á þann veg að þau uppfylli þau skilyrði sem við teljum að þurfi að uppfylla, og ég vænti þess að sem flestir komi að því máli og vilji gera það. Það liggur þá alveg fyrir hvaða skilning við höfum á því og vonandi verður það til að skýra málið. Ég vænti þess að hv. þingmenn geti verið sammála um að það er ekki alveg sama hvernig þetta er og það hlýtur að þurfa að vera einhver skilgreining á því hvað er íslenskt fyrirtæki. Það er hægt að stofna alls konar pappírsfyrirtæki. Það er enginn vandi. Og ég spyr: Er þá nóg að stofna pappírsfyrirtæki á Íslandi? (GE: Við skulum þá hafa það íslenskt fyrirtæki.) Og ætli sé þá ekki nauðsynlegt að skilgreina hvað við eigum við með því? (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Menn geta haft mismunandi skoðanir á því og við skulum fara yfir það. En við vitum að hægt er að stofna hundruð pappírsfyrirtækja. (Gripið fram í.)

Hv. þm. spurði hvort ég væri tilbúinn að beita mér fyrir því að Bandaríkjamenn hefðu ekki lengur undanþágu frá skattskyldu hér á landi, (GE: Að taka upp skattskyldu.) að taka upp skattskyldu á starfsemi Bandaríkjamanna hér á landi. Svarið er einfalt, það er nei. Það samrýmist ekki íslenskum hagsmunum og varnarskuldbindingum Íslands að sú starfsemi sem rekin er á Keflavíkurflugvelli greiði skatta og skyldur til íslenska ríkisins. Hins vegar greiðir allt það fólk sem hefur laun af þeirri starfsemi skatta og skyldur sem íslenskir ríkisborgarar. Íslendingar fá því óbeint verulegar skatttekjur af þeirri starfsemi. En það er engan veginn frambærilegt að fara nú að tala um að viðkomandi aðili borgi skatta af allri starfsemi hér á landi. Þá er hv. þm. að taka upp hugsun sem ég hélt að væri fyrir löngu aflögð. (GE: Aronsku?) Ég ætla ekki að nefna það en einu sinni var hún kölluð það og menn vildu taka upp gjöld fyrir alla mögulega og ómögulega hluti og vildu láta Bandaríkjamenn borga vegi og sjálfsagt mundu þeir sömu menn telja rétt að þeir greiddu fyrir jarðgöng víðs vegar um landið nú til dags. Ég vænti þess að hv. þm. eigi ekki við það að fara eigi að taka af þeim skatta og skyldur til að byggja jarðgöng. Mér finnst það vera alveg fráleit hugsun og ég er ekki tilbúinn til að nefna það því að ég hef ávallt verið á móti slíkri hugsun. Þegar ég kom í utanrrn. minnir mig að þar hafi verið tekjupóstur upp á annaðhvort 1.000 dollara eða 500 dollara, ég man það ekki, fyrir afnot af Keflavíkurveginum sem var eitthvað frá gamalli tíð. Ég bað menn vinsamlegast um að endursenda slíka fjármuni sem skiptu svo sem engu máli, en öll slík hugsun tel ég að eigi ekki við í þessu máli. Við Íslendingar erum að leggja af mörkum með því að leggja til þessa aðstöðu. Það hefur alltaf verið viðurkennt og það höfum við gert endurgjaldslaust og eigum að halda áfram að gera það.

Hv. þm. spurði um Eimskipafélag Íslands. Það liggur ljóst fyrir að Eimskipafélag Íslands var eitt sinn með þessa flutninga en Eimskipafélag Íslands á engan einkarétt á þeim flutningum. Það er ekki skoðun utanrrn. ef einhver heldur það. Það liggur hins vegar fyrir að við höfum ákveðna skoðun á því hvernig menn uppfylla skilyrði til þess að geta tekið þátt í íslenska hluta þessara flutninga, og ég endurtek: hinum íslenska hluta þessara flutninga, ekki hinum bandaríska. Við erum einfaldlega að fylgja því eftir að farið sé að þeim reglum. Hvaða skipafélög það eru er háð því að þau uppfylli þessi skilyrði. Sem betur fer eru það fleiri fyrirtæki en Eimskipafélag Íslands og að sjálfsögðu getur þeim fyrirtækjum fjölgað. Við búum í frjálsu landi og ef menn eru jafnáhugasamir og hér kemur fram um að taka þátt í þessum flutningum, þá hljóta þeir að geta uppfyllt þau skilyrði sem koma fram í þeim samningi sem við gerðum um þessi mál á sínum tíma. En ég tek fram að ég er ekkert viss um að slíkur samningur yrði gerður í dag og menn mundu sætta sig við að allir þessir flutningar yrðu annaðhvort með bandarísku fyrirtæki eða íslensku fyrirtæki. Það má vel vera. Ég á ekki von á ef við gengjum til slíkra samninga í dag að hann yrði eins. En það kemur bara málinu ekki við. Samningurinn var gerður og hann var í gildi. Og svo lengi sem hann er í gildi og hefur ekki verið endurskoðaður, ber að standa við hann.