Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 12:01:06 (5392)

2000-03-16 12:01:06# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[12:01]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði um þetta mál eins og frv. gildi bara um eitt mál, að þetta frv. sé bara um eitt mál. (ÖS: Ég óttast það.) Svo er alls ekki. Hann óttast það. Þá hefur hann ekki lesið frv. Það liggur alveg ljóst fyrir, hv. þm., að við teljum að þarna hafi ekki verið farið að reglum. Við höfum verið þeirrar skoðunar að það ætti að bjóða út á nýjan leik. Það er okkar skoðun og við höfum haldið henni fram við Bandaríkjamenn og menn þurfa ekkert að reyna að snúa út úr því.

Hins vegar hef ég sagt og stend við það að þessu frv. sem slíku er ekki ætlað að grípa inn í gerða samninga. Þessu frv. er ætlað að skapa meira réttaröryggi og tryggara umhverfi fyrir þá sem skipta við varnarliðið. Það er ætlunin með þessu frv. Ég vona að það sé skýrt og ég vænti þess að þeim tilgangi verði náð ef frv. verður að lögum. Ég tel mjög mikilvægt að það verði að lögum.