Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 12:07:31 (5396)

2000-03-16 12:07:31# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[12:07]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mig nú kannski í reynd ekki hafa svarað nægilega skýrt spurningum hv. þm. að því er varðar bráðabirgðaákvæði I og II. Ég hygg að mér hafi láðst að gera það. En samkvæmt greinargerð með frv. þá er hér sérstaklega verið að vitna til þess samkomulags sem gert var milli Íslands og Bandaríkjanna um tiltekinn rétt ákveðinna fyrirtækja, þ.e. Íslenskra aðalverktaka og Keflavíkurverktaka í tiltekinn tíma. Frv. fjallar um hvernig þessum málum skuli almennt vera fyrir komið, meðal annars með nánustu framtíð í huga.

En það er hins vegar staðreynd að tilteknar reglur gilda um þessi tvö fyrirtæki og þessu frv. er ekki ætlað að breyta því ástandi eða því ástandi sem kynni að skapast með nýjum samningum við Bandaríkjamenn. Þá er ég ekki að gefa nokkurn skapaðan hlut í skyn í þeim efnum. Það er fyrst og fremst tilgangurinn með þessum ákvæðum til bráðabirgða sem ég hygg að mér hafi láðst að svara.