Skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 12:14:22 (5398)

2000-03-16 12:14:22# 125. lþ. 81.3 fundur 452. mál: #A skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu# (EES-reglur) frv. 57/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[12:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að tímabært sé að við Íslendingar komum upp kerfi þar sem fylgst sé skipulega með tæknilegum viðskiptahindrunum eða tæknireglum sem geta á köflun verkað sem tæknilegar viðskiptahindranir. Ég hygg nú að langmestar líkur séu á því að þær berist að okkur utan frá frekar en að mikil hætta sé á því að hér verði settar reglur eða að upp komi þær aðstæður að af okkar hálfu verki hlutir eins og tæknilegar viðskiptahindranir út á við. Þó er að sjálfsögðu ekki hægt að útiloka það og svona tilkynningarfyrirkomulag og eftirlitskerfi hlýtur að sjálfsögðu að verða gagnkvæmt. Ég geri ekki athugasemdir við það nema síður sé þó að þessum málum sé komið í skikkanlegt horf af okkar hálfu.

[12:15]

Mig langar af okkar hálfu að spyrja hæstv. utanrrh. aðeins um framkvæmdina. Nú er það svo að þetta er væntanlega á ábyrgð utanrrn. sem fer með utanríkisviðskiptamál og framkvæmd alþjóðasamninga fyrir okkar hönd. Ég sé í athugasemdum með frv. að meiningin er að fela Löggildingarstofu að annast þessa framkvæmd, taka við og senda tilkynningar og ég vildi í fyrsta lagi spyrja: Er ekki ástæða til að hafa neinar áhyggjur af því að framsal verkefnis af þessu tagi skapi vandamál eða er búið að kanna að samstarfsaðilar, hvort sem heldur eru evrópskar stofnanir eða Alþjóðaviðskiptastofnunin, taki aðila eins og Löggildingarstofuna fullgildan eða verður þetta gert í umboði utanrrn. Ég geri þá ráð fyrir því að um stjórnvald og yfirvald þurfi að vera að ræða. Ég minni á þær hremmingar sem Íslendingar hafa áður lent í varðandi t.d. áform um að stjórnvöld framselji frá sér eftirlitsvald til annarra aðila á lægri stjórnsýslustigum eða einkaaðila, að slíkt hefur ekki verið tekið gilt. Ég vildi spyrja um þetta atriði.

Í öðru lagi vildi ég spyrja um kostnað. Mér sýnist ákaflega varlega áætlað að einn starfsmaður og kostnaður upp á 5 millj. kr. á ári komi til með að nægja til að annast þessa framkvæmd því að þetta hlýtur að fela í sér að taka á móti og miðla áfram öllum tilkynningum af þessum toga sem okkur berast og ég ráð fyrir að það sé talsvert magn.

Það þriðja sem vekur spurningar er mögulegur tvíverknaður í þessum efnum og tvöfalt kerfi sem virðist þarna vera að komast á að verulegu leyti. Annars vegar er um að ræða tilkynningar og eftirlit með þessum hlutum á vettvangi Evrópuríkjanna eða á EES-svæðinu og hins vegar er Alþjóðaviðskiptastofnunin að því er best verður séð með mjög sambærilega hluti á öllum þeim sviðum sem Alþjóðaviðskiptastofnunin tekur til, þ.e. þegar í hlut eiga almennar iðnaðarvörur og væntanlega í framhaldinu einnig fleiri vörur eins og landbúnaðarvörur og sjávarafurðir. Það er kannski ekki praktískt mál að spyrja hvort einhver leið hefði verið til þess að einfalda þetta t.d. að það nægði að tilkynna til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar það sem þar er og það dygði að það gengi síðan áfram eða hvort þarna er um tvíverknað að ræða og að hve miklu leyti hann er óumflýjanlegur.