Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 12:40:54 (5402)

2000-03-16 12:40:54# 125. lþ. 81.4 fundur 377. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[12:40]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Ég kem hér upp til þess að lýsa stuðningi mínum við þessa tillögu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og meðflutningsmanna hans. Ég tel að tillögugreinin sé skynsamlega saman sett. Það er auðvitað alveg ljóst að það verður að endurskoða þetta viðskiptabann. Það hefur engan veginn þjónað tilgangi sínum. Hörmungarnar sem Írakar hafa mátt líða vegna þess á liðnum áratug eru slíkar að ég býst við að fáir geri sér grein fyrir hvað er að gerast í Írak í raun og veru. Auðvitað hafa ekki margir átt þess kost að kynna sér ástandið þar en við lestur blaðagreina og skýrslna um þessi mál er auðvitað alveg ljóst að viðskiptabannið er ekkert minna en ósýnilegt stríð á hendur íröksku þjóðinni. Og hverjir eru það sem líða fyrst í stríði? Það eru að sjálfsögðu þeir sem minnst mega sín. Það eru börnin, það er gamla fólkið og svo að lokum falla hinir fullorðnu líka. Það er ekkert minna en siðferðileg skylda okkar á hinu háa Alþingi að beita mætti okkar þannig að þetta viðskiptabann verði tekið til tafarlausrar endurskoðunar. Ég skora á hæstv. utanrrh. að beita sér fyrir því að þessi þáltill. verði samþykkt þannig að við getum beitt okkur á alþjóðlegum vettvangi fyrir slíkri endurskoðun.

Hv. flm. Steingrímur J. Sigfússon skýrði hér ítarlega ástæður þess hvers vegna þetta viðskiptabann hefur engan veginn þjónað tilgangi sínum, ég hef litlu við það að bæta. En mér finnst mjög mikilvægt að menn gleymi því ekki að í ákvæðum og umfjöllun um viðskiptabann er því ætíð hnýtt aftan við að þeir sem setji á viðskiptabann gagnvart öðrum þjóðum séu meðvitaðir um hvaða afleiðingar það hafi með tilliti til mannúðarsjónarmiða og til lífs almennings í þeim löndum sem verða fyrir slíku. Staðreyndirnar liggja fyrir. Hörmungarnar sem þetta viðskiptabann m.a. hefur leitt yfir íröksku þjóðina eru slíkar að ekkert réttlætir þær og það er alveg ljóst að sá áratugur sem liðinn er síðan þetta bann var sett á hefur gert okkur ljóst að viðskiptabönn virka illa eða ekki á harðstjóra, á einræðisríki. Þau geta virkað á lýðræðisríki. En það hlýtur að leiða af hugsuninni að baki viðskiptabanninu að þrýstingur myndist frá almenningi á stjórnvöld, þrýstingur sem jafnvel leiðir til þess að þau fari frá. Ekkert slíkt er uppi á teningnum í Írak. Það er löngu ljóst og þess vegna er um gjörsamlega misheppnaða aðgerð að ræða. Við vitum líka að viðskiptabannið á Júgóslavíu hefur eitt og sér líklega styrkt Milosevic meira í sessi en margt annað. Það er reyndar önnur umræða en hins vegar tengist það þeirri almennu umræðu um gildi viðskiptabanna og hvort þau séu í raun til nokkurs þegar einræðisríki eða harðstjórar eru annars vegar. Þetta er brýn og þörf tillaga, herra forseti. Ég lýsi enn og aftur yfir stuðningi mínum við hana og von minni til þess að hið háa Alþingi sjái sér fært að samþykkja hana núna hér í þetta sinn.