Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 12:48:26 (5404)

2000-03-16 12:48:26# 125. lþ. 81.4 fundur 377. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[12:48]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt að þetta mál sé rætt á hv. Alþingi og ég heyri að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræðir það nokkuð á annan hátt en hann hefur gert á undanförnum árum og ég vil þakka honum fyrir það. Það er annar tónn í málflutningi hans og ég virði þær skoðanir sem þar koma fram og tel mikilvægt að þetta mál sé rætt á þann hátt hér á hv. Alþingi.

Það liggur alveg ljóst fyrir að Frakkar, Kínverjar og Rússar hafa haldið því fram í öryggisráðinu að Írakar hafi fullnægt kröfum öryggisráðsins sem eru settar fram í ályktunum þess. Bandaríkjamenn og Bretar hafa hins vegar sagt að það eigi eftir að svara fjölda spurninga um efnavopn og margt fleira. Og í ályktun nr. 1284/1999 ályktaði öryggisráðið að þar sem Írak hafi ekki fullnægt öllum skilyrðum ályktunar 686/1991 væri ekki unnt að aflétta viðskiptaþvingunum.

Eins og kunnugt er gerði ályktun 1284 ráð fyrir því að sett yrði á laggirnar ný eftirlits- og rannsóknarnefnd til að annast vopnaeftirlit í Írak og var henni ætlað að fylgja því eftir að íröksk stjórnvöld játist undir ályktanir öryggisráðsins. Sú eftirlitsnefnd leysti fyrri vopnaeftirlitsnefnd frá 1991 af hólmi en sú nefnd hafði sætt mikilli gagnrýni undir það síðasta.

Hin nýja eftirlitsnefnd hefur ekki hafið störf af fullum krafti. Búið er að skipa nefndina og enn er verið að vinna að skipulagslegum atriðum sem tryggja mun hlutlaust yfirbragð hennar. Og sem kunnugt er er það hinn sænskættaði Hans Blix sem mun stýra störfum hennar.

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna ræddu þetta mál á fundi sínum í Kaupmannahöfn nýlega. Segja má að það sé samhljóða álit okkar að við vonumst eftir því að hin nýja nefnd undir forustu Hans Blix muni geta varpað betra ljósi á það sem er að gerast í Írak þótt mikil vitneskja sé um það fyrir. Það liggur alveg ljóst fyrir að þar eiga miklar hörmungar sér stað.

Tekjur af olíusölu Íraka renna í sjóð undir stjórn Sameinuðu þjóðanna og sá sjóður á að renna til mannúðarmála. Það er hins vegar mat manna að þrátt fyrir nýlegar hækkanir á olíuverði og þá um leið meiri tekjur í þenna umrædda sjóð hafi ástand mannúðarmála þarna á svæðinu alls ekki tekið þeim framförum sem menn hefðu viljað sjá og eftirlitsmenn samtakanna viðurkenna mjög mikla erfiðleika fólks í Írak og telja jafnframt að olíusölukerfið og mannúðaraðstoðin hafi þó haft verulega jákvæð áhrif.

Það verður þó að hafa það í huga að íröksk stjórnvöld hafa hindrað þetta starf vísvitandi, hafa í reynd hindrað að þessi mannúðaraðstoð geti skilað sér, sem er mjög alvarlegt. Og það er alveg ljóst að standa hefði mátt mun betur að matvælaaðstoð á svæðinu og lyfjadreifingu og íröksk stjórnvöld geta að sjálfsögðu ekki firrt sig þeirri ábyrgð.

Frá upphafi hafa íröksk stjórnvöld selt olíu fyrir rúmlega 18 milljarða Bandaríkjadollara, sem varið hefur verið til kaupa á varningi í þágu mannúðaraðstoðar og dreift bæði af stjórnvöldum þar og starfsmönnum Sameinuðu þjóðanna. Ýmsar stofnanir Sameinuðu þjóðanna vinna að heilbrigðismálum í Írak, m.a. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og þær stofnanir hafa reynt að gera sitt ýtrasta til þess að koma þarna til aðstoðar. Reynt var að ná til barna á aldrinum þriggja til fimm ára á sl. ári og m.a. má nefna að UNICEF hefur annast bólusetningu gegn lömunarveiki og það hefur tekist sem betur fer að ná til að því talið er 99% barna undir fimm ára aldri í landinu. Það er hins vegar ljóst að margt er ógert og hörmungarnar eru miklar.

Mér finnst vissulega koma til greina að aflétta þessu viðskiptabanni. En við verðum að hafa það í huga að það er aðeins tvennt sem Sameinuðu þjóðirnar geta gert. Það er annars vegar að beita viðskiptabanni og hins vegar valdbeitingu. Og við skulum líka hafa það í huga í þessu sambandi að jafnvel þótt viðskiptabanninu verði aflétt er hörmungum þarna ekki lokið. Hörmungum barnanna er ekki lokið. Þarna ríkir skelfilegt ástand sem er fyrst og fremst á ábyrgð þess harðstjóra sem þar er við völd.

Vissulega er rétt að það ber að hafa uppi efasemdir um hvernig harðstjórar skuli meðhöndlaðir. En það hlýtur að vera skylda lýðræðisaflanna í heiminum og þeirra sem berjast fyrir mannúð og mannvernd að berjast gegn slíkum illum öflum með þeim tækjum sem til eru. En það er slæmt til þess að vita að stundum bitnar það á þeim sem síst skyldi og alltaf á að endurmeta það. Það er samdóma álit Norðurlandanna að endurmeta beri þetta mál m.a. í ljósi þess sem kemur út úr því starfi sem er nú undir forustu Hans Blix sem við höfum mikla tiltrú á. Við munum að sjálfsögðu endurskoða afstöðu okkar til þessa máls með reglulegum hætti eins og við höfum gert. En ég tel eðlilegt og nauðsynlegt að Norðurlöndin hafi samstarf sín á milli í þessu mikilvæga máli. Hin Norðurlöndin hafa meiri möguleika á því að fylgjast með málum á þessu svæði og við Íslendingar nýtum okkur þá þekkingu og viljum hafa samstarf við þau.

En okkur er það eitt í huga að vinna að því að koma þessum málum til betri vegar eins og hefur verið gert í Suður-Afríku og fyrrum Júgóslavíu, því að viðskiptabann er það sem við höfum beitt og munum beita. Því er beitt til að koma framtíðarkynslóðum til hjálpar. En ef það snýst upp í andhverfu sína, þá ber vissulega að endurskoða það.

Í því sambandi vil ég sérstaklega hafa það í huga að þessi valdsmaður í Írak hefur beitt sér skipulega fyrir því að mannúðaraðstoðin komist ekki til skila til þess að fá meiri samúð heimsins, því í huga hans skiptir engu máli hvort milljón barna deyi ef það eitt getur orðið til þess að efla völd hans.