Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 13:46:49 (5406)

2000-03-16 13:46:49# 125. lþ. 81.5 fundur 397. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum# frv., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[13:46]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku og eiturefnavopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Þetta er á þskj. 655, 397. mál. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman og Össur Skarphéðinsson.

Segja má að þetta mál, herra forseti, svipað og síðasta dagskrármálið sem hér var til umræðu, sé að verða gamall kunningi. Ég hygg að þetta frv. sé nú flutt í 7. sinn, í það var efnað á árunum 1984--1985 ef ég man rétt. Þannig háttaði til þegar það var fyrst flutt að þá voru sömuleiðis til umfjöllunar á þingi Nýsjálendinga drög að frv. til laga um friðlýsingu Nýja-Sjálands fyrir því sama, þ.e. friðlýsingu Nýja-Sjálands fyrir kjarnorku- og efnavopnum og takmarkanir á umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Þar skildi þó á milli með þessum málum að Nýsjálendingar settu þetta í löggjöf. Þeir kjarnorkufriðlýstu land sitt og urðu að því nokkur eftirmál og ýfingar með Nýsjálendingum og Bandaríkjamönnum einkum og sér í lagi. Þær leiddu nánast til þess að svonefnt varnarbandalag Suðvestur-Kyrrahafsins ANZUS leið undir lok.

Hér hefur þessu máli, herra forseti, hins vegar reitt af --- kannski öllu heldur ekki reitt af --- þannig að það hefur aldrei fengist afgreitt úr nefnd. Það er auðvitað dapurlegt að menn skuli þurfa að búa við það jafnvel áratugum saman að ekki sé tekist á við grundvallarmál eins og þetta, spurninguna um hvort Íslendingar fylgi í fótspor þeirra fjölmörgu þjóða, jafnvel heilla heimsálfa, sem friðlýst hafa yfirráðasvæði. Það er dapurlegt að það ráðist í raun af því sleifarlagi sem hér er uppi, að mál hljóta ekki afgreiðslu árum og jafnvel áratugum saman.

Frv., herra forseti, lýsir þessu í einum 17 lagagreinum, þ.e. með hvaða hætti þessu yrði fyrirkomið. 1. gr. er svohljóðandi:

,,Lög þessi gera Ísland að friðlýstu svæði þar sem bannað er að koma fyrir, staðsetja eða geyma, flytja um eða meðhöndla á nokkurn annan hátt kjarnorku- eða eiturefnavopn. Umferð kjarnorkuknúinna farartækja er bönnuð á hinu friðlýsta svæði og einnig flutningur eða losun kjarnakleyfra efna og kjarnorkuúrgangs.``

Markmið laga þessara, eins og segir í 2. gr., er að gera allt íslenskt yfirráðasvæði kjarnorku- og eiturefnavopnalaust, afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar, draga úr hættunni á kjarnorku- og eiturefnaóhöppum á Íslandi og í grennd við Ísland og stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.

Þessar tvær greinar, herra forseti, lýsa kjarna málsins.

Í 3. gr. eru orðskýringar.

4. gr. leggur kvaðir á hendur íslenskra ríkisborgara og tengjast því sama. Frv. felur ekki aðeins í sér yfirlýsingu af hálfu Íslands sem ríkis eða sjálfstæðrar þjóðar heldur leggur það einnig kvaðir á íslenska ríkisborgara, að þeir taki ekki með athæfi sínu þátt í að búa til kjarnorkuvopn eða eiturefnavopn, hafi þau undir höndum eða leggi því lið á einn eða annan hátt að með þau sé sýslað.

Í 7. gr. voru sett inn ákvæði um að banna tilraunir með kjarnorkuvopn á íslensku yfirráðasvæði eða innan hins friðlýsta svæðis. Á sínum tíma voru í gangi tilraunir af hálfu nokkurra þjóða með kjarnorkuvopn og tilraunasprengingar; Bandaríkjamenn, Kínverjar og Frakkar hafa af og til gert slíkt þó að nú hafi verið gerður um það alþjóðasamningur sem því miður er að vísu strand í bili vegna andstöðu á Bandaríkjaþingi.

10. gr. kveður á um kjarnorkuknúin farartæki og bannar för þeirra um hið friðlýsta svæði, sbr. þó ákvæði 12. gr. Hið sama á við um 11. gr., um farartæki sem flytja kjarnakleyf efni eða kjarnorkuúrgang og losun er þar sömuleiðis í 2. mgr. bönnuð.

12. gr. geymir þær undanþágur gagnvart 6., 9. og 10. gr. og fyrri mgr. 11. gr. sem óhjákvæmilegt er talið að hafa vegna alþjóðaréttar, þ.e. varðandi friðsamlega umferð eða gegnumferð upp að 12 mílna mörkum. Það er ljóst að við höfum ekki samkvæmt þjóðarétti stöðu til að banna slíka umferð innan sérefnahagslögsögunnar og sérstaklega ætti það ekki við um umferð vestan við landið þar sem sérefnahagslögsögur Íslands og Grænlands, eða reyndar Danmerkur fyrir hönd Grænlands, liggja saman. Sama má auðvitað segja um sundið milli Íslands og Færeyja. Samkvæmt þjóðarétti er ekki mögulegt að banna slíka friðsamlega gegnumferð. Þetta tæki þó aldrei til svæðisins innan 12 sjómílna marka og lofthelginnar þar upp að.

Í 13. gr. er síðan fjallað um komu kafbáta, herskipa eða herloftfara inn fyrir 12 sjómílna loft- eða landhelgi og að heimsóknir slíkra farartækja til íslenskra hafna eða flugvalla skyldu aldrei leyfðar nema óyggjandi teldist að í því fælist ekki brot á þessari friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum. Þar er og fjallað um það hvernig fara skuli að í vafatilvikum o.s.frv.

14. gr. kveður á um vinnu íslenskra stjórnvalda að því að afla hinu friðlýsta svæði og friðlýsingunni sem slíkri viðurkenningar á alþjóðavettvangi og reyna með samningum við einstök ríki, samtök ríkja eða alþjóðastofnanir, að ná því fram að hið friðlýsta svæði verði virt og viðurkennt.

Í 15. gr. er refsiákvæði og 16. gr. felur framkvæmdina utanrrh. sem hann fari með í samráði við Alþingi og utanrmn. Alþingis og jafnframt sé utanrrh. heimilt að fela öðrum ráðherrum sem til greina gætu komið framkvæmd einstakra þátta, svo sem samgrh. eða umhvrh.

Herra forseti. Það hefur gengið á ýmsu í sögu þessa frv. og flutningsmannahópurinn hefur tekið breytingum. Oftar en einu sinni voru meðflutningsmenn úr öllum þingflokkum nema einum, þ.e. þingflokki Sjálfstfl. Þannig fluttu þetta frv. á kjörtímabilinu 1991--1995, ásamt með þeim sem hér stendur og ég hygg tveimur af núv. meðflutningsmönnum, hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni og Össuri Skarphéðinssyni, ekki ómerkari menn en þáv. formaður Framsóknarflokksins, Steingrímur Hermannsson, og þáv. formaður þingflokks Framsóknarflokksins, Páll Pétursson. Þá leit út fyrir að Framsóknarflokkurinn fylkti sér á bak við þessa stefnu að unnið skyldi að friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum. Síðan hefur orðið nokkurt mannfall í meðflutningsmannahópnum og þar hafa nú ekki sést framsóknarmenn því miður, herra forseti, frá og með því að núv. utanrrh. tók endanlega við mannaforráðum á þeim bæ. Meðflutningsmenn að þessu frv. eru eftir sem áður úr tveimur stærri þingflokkum stjórnarandstöðunnar.

Það má líka geta þess, herra forseti, að í raun liggur hluti þessa frv. fyrir á Alþingi nú þegar í formi stjfrv. Hæstv. dómsmrh., ef ég man rétt --- a.m.k. einhver hæstv. ráðherra --- hefur hér flutt frv. um að við tökum upp í okkar rétt ákvæði sem þarf til að banna efnavopn hjá okkur í samræmi við þróun þeirra mála á alþjóðavettvangi. Það er að sjálfsögðu vel en þó er ástæða til að minna á að í reynd hefur slíkt legið fyrir í frumvarpsformi, tillaga um það, í talsvert á annan áratug.

Ég ætla, herra forseti, ekki að hafa um þetta öllu fleiri orð í ljósi þess hversu gamalkunnugt þetta mál er. Ég vonast til að fyrr eða síðar komi að því að málið fái hér afgreiðslu og Íslendingar beri gæfu til að sameinast um að friðlýsa land sitt. Það væri tvímælalaust heillaspor í öllu tilliti að mínu mati, með því legðum við okkar lóð á vogarskálar friðar og afvopnunar. Við værum að gera róttæka ráðstöfun af okkar hálfu til að reyna að verja land okkar og efnahagslögsögu fyrir þeirri vá sem steðjað getur af óhöppum í umferð kjarnorkuknúinna farartækja eða meðferð kjarnorkuvopna. Við værum þar að gefa gott fordæmi í hópi Vestur-Evrópuríkja. Við mundum jafnframt slást í hóp með þeim stóra hluta mannkynsins sem hefur einhliða gripið til slíkra ráðstafana. Ég leyfi mér þá að minna á kjarnorkufriðlýsingu Suður-Ameríku, Tlatelolco-samninginn svonefnda og ég minni á Rarotonga-samkomulagið um kjarnorkufriðlýsingu Kyrrahafsins. Ég minni einnig á viðræður sem staðið hafa yfir í Afríku um að gera heimsálfuna Afríku að kjarnorkuvopnalausu friðlýstu svæði. Ég get vísað til umræðna í Evrópu, m.a. um að kjarnorkufriðlýsa Norðurlönd og mynda friðarbelti niður eftir Evrópu, milli austan- og vestanverðra hluta álfunnar, sem kæmi í staðinn fyrir járntjaldið sem þar stóð einu sinni. Víða um heim er hreyfing á þessum málum og þrátt fyrir allt er hægt að gleðjast yfir því sem áunnist hefur. Samningurinn um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna hefur náð fram að ganga og alþjóðasamningur um tilraunabann sömuleiðis, þó að hann sé nú strand eins og áður var getið.

Á hinn bóginn hafa komið fram áhyggjuefni í þróun mála á síðustu missirum og ber þar einkum að nefna að ríki eins og Indland og Pakistan hafa gert tilraunir með kjarnorkuvopn. Í reynd er það óopinbert leyndarmál að kjarnorkuveldunum hefur fjölgað um nokkur ríki á síðustu árum eða einum til tveimur áratugum. Líklega eru þau nær því að nálgast átta eða tíu frá því að vera þau fimm sem hingað til hafa opinberlega verið talin búa yfir slíkum vopnum. Í þann hóp verður að bæta ríkjum eins og Ísrael, Indlandi og Pakistan og margir óttast að ein tvö til þrjú í viðbót séu skammt undan.

[14:00]

Mannkynið stendur því enn þá frammi fyrir þessari ógn hvað sem líður slökun og nokkurri afvopnun. Langalvarlegasta bráðaógnunin sem steðjar að öryggi og lífi og heilsu manna á jörðu er hættan á átökum eða stórfelldum óhöppum sem tengjast kjarnorkuvopnum og nýtingu eða beislun kjarnorku yfirleitt. Um það er ekki deilt. Ég leyfi mér þess vegna að halda því fram að það væri í góðu samræmi við þann orðstír sem við tölum um a.m.k. á tyllidögum að við viljum skapa okkur í heiminum sem friðelskandi smáþjóð, að við gripum til aðgerða gagnvart landi okkar og lögsögu af því tagi sem þetta frv. felur í sér.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni umræðunni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. utanrmn.