Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 14:01:20 (5407)

2000-03-16 14:01:20# 125. lþ. 81.5 fundur 397. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum# frv., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[14:01]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins ítreka það sem ég hef áður sagt um þetta mál. Við Íslendingar höfum margoft ítrekað að kjarnorkuvopn skuli ekki staðsett hér og ekki í íslenskri löghelgi og á þeirri stefnu er engin breyting. Kjarnorkuvopn hafa ekki verið staðsett hér á landi og stendur ekki til að gera það. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að útrýming kjarnorkuvopna í heiminum, sem ég vil berjast fyrir, muni fyrst og fremst nást á vettvangi samningaleiðarinnar en ekki með einhliða yfirlýsingum eða lagasetningu í einstökum löndum. Náðst hefur verulegur árangur í þessari viðleitni í afvopnunarviðræðum á undanförnum árum og áratugum með niðurskurði kjarnavopna, sérstaklega hjá stórveldunum. Gerður hefur verið efnavopnasamningur um hefðbundin vopn í Evrópu sem Ísland hefur undirritað og samningur gegn útbreiðslu kjarnavopna eða svokallaður NPT-samningur. Það vill svo til að 24. apríl nk. er endurskoðunarráðstefna um þann samning á vegum Sameinuðu þjóðanna í New York. Við munum taka þátt í þeirri ráðstefnu og leggja okkar af mörkum til að áfram megi halda á þeirri braut að kjarnorkuvopn haldi ekki áfram að breiðast til fleiri landa í heiminum. Eins má nefna samninginn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn sem er mjög mikilvægur þótt ákveðin ríki hafi ekki undirritað hann eins og kom fram hjá hv. flm.

Ég vil jafnframt ítreka að Ísland er aðili að Atlantshafsbandalaginu og hefur þar ákveðnar skuldbindingar. Samþykkt þessa frv. samrýmist ekki þeim skuldbindingum eins og áður hefur komið fram við umræðu um málið og ég vil lýsa yfir áframhaldandi andstöðu minni við þetta frv.