Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 14:04:14 (5408)

2000-03-16 14:04:14# 125. lþ. 81.5 fundur 397. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum# frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[14:04]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég stend upp til að gera í örstuttu máli grein fyrir stuðningi mínum við þetta frv. til laga sem flutt er af þingmönnum vinstri grænna og nokkrum þingmönnum Samfylkingarinnar. Ég er ekki þar á meðal en efni þessa frv. er mér ákaflega hugþekkt. Ég vil sérstaklega benda á 1. gr., markmiðsgreinina þar sem segir:

,,Lög þessi gera Ísland að friðlýstu svæði þar sem bannað er að koma fyrir, staðsetja eða geyma, flytja um eða meðhöndla á nokkurn annan hátt kjarnorku- eða eiturefnavopn. Umferð kjarnorkuknúinna farartækja er bönnuð á hinu friðlýsta svæði og einnig flutningur eða losun kjarnakleyfra efna og kjarnorkuúrgangs.``

Ég tel að okkur væri mikill sómi að samþykkt slíkrar tillögu. Það kemur fram í grg. að þetta frv. er flutt í sjöunda sinn svo mál er til komið að tekið verði hressilega á og það afgreitt út úr hv. utanrmn. til samþykktar í þinginu. Ég tel að þeir kunni að leynast víða sem styðja þetta mál. Ýmsar blikur eru á lofti í þessum málum eins og minnt hefur verið á, t.d. tilraunir Indlands og Pakistans með kjarnorkuvopn sem hafa verið gerðar á undanförnum árum. Einnig og ekki síst sá alvarlegi atburður þegar fulltrúadeild Bandaríkjaþings felldi tillögu forseta landsins þess efnis að skrifa undir alþjóðlegan samning um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn. Líka hefur ákveðinn sperringur í rússneskum yfirvöldum, sem hafa verið að minna á sig sem kjarnorkustórveldi, vakið ugg og því telja margir að það sé þeim mun brýnna að samþykkja slíka tillögu en áður hefði verið.

Það er alveg rétt sem hefur komið fram að með samningum hefur með ákveðnum hætti verið skorinn niður kjarnorkuvígbúnaður. Það er ágætt út af fyrir sig en öllum heiminum stafar mikil hætta af nýtingu kjarnorku líka á öðrum sviðum en sviði hernaðar eins og til raforkuframleiðslu. Skemmst er að minnast hins hræðilega atburðar sem varð í Úkraínu og enn eru að koma fram mjög alvarlegar afleiðingar af. Núna kemur einnig í ljós varðandi endurvinnslustöðina í Sellafield, þar sem allt átti að vera tryggt og öryggi í hámarki og ekki er svo lítið búið að gera úr því, að niðurstöður af öryggisráðstöfunum höfðu verið falsaðar markvisst. Það eru fleiri slíkar stöðvar en í Sellafield og ef það er viðtekin regla að allt það öryggi sem á að vera í kringum þetta er meira og minna falsað vekur það náttúrlega ákveðinn ugg. Ég held að það sé ekki síst þess vegna ástæða til að taka af skarið og sýna mjög markvissa andstöðu.

Ég tek undir það sem stendur í grg. með þessu frv. að það sé eðlileg, lýðræðisleg krafa að sú yfirlýsta stefna, að hér skuli ekki geymd kjarnorkuvopn, verði bundin í lögum landsins. Ég tel að fyllsta ástæða sé til þess. Jafnvel þó það sé yfirlýst að hér hafi aldrei verið geymd kjarnorkuvopn og það sé líka yfirlýst að hér hafi aldrei verið farið um með kjarnorkuvopn hafa samt komið fram mjög sterkar vísbendingar í gagnstæða átt sem ég tel alveg fyllsta mark á takandi. Ég held að það sé líka alveg vert að taka undir það að í framhaldi af slíkri lagasetningu hlyti að koma til skoðunar að taka upp almenn ákvæði þar að lútandi í stjórnarskrá. Með þeim hætti væri vilji bæði Alþingis og þjóðarinnar allrar tryggður að baki friðlýsingar landsins.

Alþingi Íslendinga væri mikill sómi af því að samþykkja slíka tillögu og lögbinda hana og ég tel, þvert ofan í það sem hæstv. utanrrh. fullyrti hér, að þrátt fyrir aðild okkar að NATO getum við vel staðið að slíkri samþykkt.