Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 14:21:43 (5410)

2000-03-16 14:21:43# 125. lþ. 81.5 fundur 397. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum# frv., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[14:21]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Mér finnst málflutningur hv. þm. í þessu máli stundum bera vott um nokkurn tvískinnung. Hann kvartar yfir því að einhverjir hafi reynt að þegja þetta mál í hel, ég veit ekki hvað hv. þm. á við með því. Ég veit ekki betur en ég sem utanrrh. hafi setið hér í þinginu í hvert einasta skipti sem hann hefur fjallað um þetta mál og ég veit ekki betur en ég hafi tekið til máls í hvert einasta skipti. Hann segist hafa safnað miklum undirskriftum til stuðnings málinu. Það kemur mér ekkert á óvart þó að ungmenni landsins vilji vera laus við kjarnavopn og eiturvopn. Það vilja allir, það vil ég líka. Það er fyrst og fremst spurningin um hvernig það verður gert, með hvaða hætti líklegast er að við náum árangri á þeim sviðum. Gerum við það einhliða eða gerum við það í samvinnu við aðrar þjóðir? Gerum við það í samvinnu við helstu bandalagsþjóðir okkar? Hann nefnir sem mikla hættu í þessu sambandi allt það dót, kjarnorkukafbáta o.fl. sem eru að ryðga niður í fyrrum Sovétríkjunum, sem sumir voru nú hrifnir af hér áður fyrr. Þetta frv. breytir engu um það, og skiptir engu máli í því sambandi. Og er ekki líklegra að það sé betra til árangurs að vinna með vina- og bandalagsþjóðum okkar að því að leysa það mál? Eða höfum við burði til þess að gera það einir? Nei, að sjálfsögðu ekki.

Það liggur alveg ljóst fyrir í mínum huga að ef þetta frv. yrði gert að lögum, þá er eðlilegt í framhaldi af því að við segjum okkur úr Atlantshafsbandalaginu. Hv. þm. sagði að það væri mjög gott að utanrrh. hefði nefnt þetta því það hefði opnað augu þjóðarinnar fyrir því að það fylgdu því skuldbindingar að vera í Atlantshafsbandalaginu. Ég hef aldrei heyrt það fyrr að þjóðin sé ekki meðvituð um að það fylgi því skuldbindingar að vera í Atlantshafsbandalaginu. Að sjálfsögðu fylgja því skuldbindingar. Það fylgja því þær skuldbindingar að ef ráðist verður á eina af þeim þjóðum sem eru í Atlantshafsbandalaginu jafngildir það árás á þær allar. Það mega menn vita. Atlantshafsbandalagið er náttúrlega stofnað vegna reynslunnar sem varð í seinni heimsstyrjöldinni. Það er rétt að Atlantshafsbandalagið hefur komið sér upp kjarnavopnum og það er stór þáttur í varnarmætti þess sem kölluð hefur verið fælingarstefna, enda liggur alveg ljóst fyrir að menn munu hika við að ráðast á þjóðir þess bandalags. Það eru margir andstæðingar kjarnavopna innan Atlantshafsbandalagsins, ekki aðeins á Íslandi og ekki aðeins sá sem hér stendur. Það eru margir utanríkisráðherrar innan Atlantshafsbandalagsins algjörlega á móti kjarnavopnum, t.d. utanríkisráðherra Þýskalands sem hefur haft þær skoðanir allt sitt líf. Ekki dettur honum í hug að Þýskaland segi sig úr Atlantshafsbandalaginu til þess að fara í þá baráttu einn og sér. Eða lýsa Þýskaland sem kjarnorkuvopnalaust svæði og friðlýsa það. Þetta fjallar eingöngu um það, hv. þm., að hvorki ég né margir aðrir teljum að sú leið sem hv. þm. er að stinga hér upp á muni skila nokkrum árangri. Og að líkja ástandinu hér við það ástand sem var í kringum Nýja-Sjáland er að mínu mati út í hött. Mér finnst að grg. með frv. sé annaðhvort vissir draumórar eða blekking, kannski sjálfsblekking. Hv. þm. telur að okkur sé best borgið utan Atlantshafsbandalagsins, utan samstarfs við vestrænar þjóðir, og flokkur hans er að verða eini flokkurinn í Vestur-Evrópu sem hefur þessa hugsun. Það eitt og sér er náttúrlega afskaplega merkilegt, en við því er ekkert að gera og frv. ber þess merki á vissan hátt.