Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 14:34:29 (5413)

2000-03-16 14:34:29# 125. lþ. 81.5 fundur 397. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum# frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[14:34]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég segi það líka í mikilli einlægni að ég vildi svo sannarlega að ég hefði tilefni til að breyta um skoðun á NATO. Ég vildi það svo sannarlega. En því miður er það þannig að ég get ekki litið á NATO öðruvísi en það sem ég tel það vera, hernaðarbandalag og notað þá nafngift.

Nú er það svo að ég tel mig hafa gert einmitt þetta sem hæstv. utanrrh. hvetur til, þ.e. að fylgjast vel með þessu máli. Ég tel mig hafa gert það. Ég hef að vísu ekki verið sérstakur gistivinur NATO sjálfs en ég hef fylgst mjög vel með umfjöllun um þessi mál á alþjóðavettvangi og haft aðstöðu til þess um langt árabil og ég hef líka búið við það að heyra þessar ræður um að NATO sé að breytast. Ég þekki þær ákaflega vel.

Ég var í flokki hér á einni tíð með mönnum sem héldu þessu mjög stíft fram að nú væri NATO allt annað en það var hér í eina tíð, að þetta væri orðið alveg sérstakur friðarklúbbur sem væri í raun og veru orðinn hálfgerður armur Sameinuðu þjóðanna til að passa upp á friðinn í heiminum. (Gripið fram í: Hvaða flokkur var þetta?) Ég tel því miður að það hafi orðið hljótt um þessar ræður eftir Kosovo.

Staðreynd málsins er sú, og það hefur allan tímann valdið því að ég hef átt erfitt með að samþykkja þessar kenningar, að NATO hefur ekki í neinu breytt sínum grundvallarsamþykktum. Ég hef sagt sem svo: Á meðan þær eru eins og þær eru, byggja á beitingu kjarnavopna að fyrra bragði, þá get ég ekki skrifað upp á þetta bandalag.

Ég tel því miður að breytingarnar á NATO, þó að sumt verki þar pósitíft eins og samstarf í þágu friðar og annað slíkt, þá sé annað neikvætt eins og utansvæðisstrategían. Ég veit nú ekki hvort er búið að þýða það fyrirbæri vel á íslensku, ,,Out of Area Strategy``, þar sem NATO velur sér í rauninni allan heiminn að eigin geðþótta að vígvelli ef svo ber undir. Ég tel það færa allt NATO í öfuga átt ef eitthvað er.

Þannig að þegar öllu er til haga haldið get ég með engu móti, því miður, skrifað upp á að það sé tilefni til að breyta afstöðu til þessa bandalags.