Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 14:36:51 (5414)

2000-03-16 14:36:51# 125. lþ. 81.5 fundur 397. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum# frv., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[14:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri á ræðu hv. þm. að Alþb. hefur þá verið u.þ.b. að klofna áður en Samfylkingin var stofnuð hvort eð var þannig að það hefur kannski ekki skipt svo miklu máli. En ég endurtek það að þarna hafa orðið miklar breytingar. Ég nefni t.d. æfinguna hér fyrir tveimur árum, Samvörð, sem var almannavarnaæfing á vegum bandalagsþjóða Atlantshafsbandalagsins og samstarfsþjóða þess. Ég minni á þá æfingu sem verður í sumar sem mun verða um björgun á hafinu. Atlantshafsbandalagið hefur því í sívaxandi mæli ekki aðeins litið á öryggi borgaranna að því er varðar hernaðarlegar varnir heldur öryggi borgaranna almennt, þar með taldar almannavarnir, þar með talda björgunarstarfsemi á hafi úti og síðast en ekki síst friðargæslu á Balkanskaga en í henni taka m.a. íslenskir lögreglumenn og íslenskt hjúkrunarfólk þátt. Aðild að þessum samtökum gefur okkur enn betra tækifæri til þess að taka þátt í friðargæslu og verja saklaust fólk frá stríðsátökum í mun meira mæli en áður var.

Þetta eru náttúrlega gífurlegar breytingar sem er alveg ástæða til að fara yfir þegar menn meta þessi samtök. Mér finnst að hv. þm. hafi ekki gert það í þeim mæli sem þörf hefði verið á. Það er hans mál að sjálfsögðu en ég harma það að hann skuli ekki hafa gert það.