Rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 14:41:41 (5416)

2000-03-16 14:41:41# 125. lþ. 81.9 fundur 391. mál: #A rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll# þál., Flm. SJóh (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[14:41]

Flm. (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um rannsókn á mengun í jarðvegi og grunnvatni við Keflavíkurflugvöll sem ég flyt ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Þessi tillaga er flutt í tengslum við aðra tillögu sem verður flutt hér í kjölfarið.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gangast fyrir rannsókn á umfangi mengunar í jarðvegi og grunnvatni frá ,,varnarsvæðinu`` við Keflavíkurflugvöll.``

Svohljóðandi greinargerð fylgir þessari tillögu:

,,Þingsályktunartillaga hliðstæð þessari hefur verið flutt áður á Alþingi og ekki náð fram að ganga. Í tengslum við tillöguna er lögð fram önnur þingsályktunartillaga þar sem lagt er til að umhverfisáhrif af völdum erlendrar hersetu á Íslandi verði rannsökuð. Steingrímur J. Sigfússon er fyrsti flutningsmaður hennar en flutningsmaður þessarar tillögu er þar meðflutningsmaður.

Á undanförnum árum hafa verið dregin fram í dagsljósið fjölmörg mengunarslys sem orðið hafa í nágrenni herstöðva víða um heim frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Vegna fákunnáttu voru menn lengi vel ekki á varðbergi og með ýmsu móti, jafnvel af ásetningi, fóru niður í jarðveg efni eins og afísingarefni, ýmiss konar hreinsiefni svo sem hið stórhættulega leysiefni tríklóretýlen, TCE, hið baneitraða PCE, úrgangsolíur, slökkviefni, rafgeymaleifar (blý og sýra), spennaolía, sem stundum innihélt PCB, málningarleifar, málmhúðunarleifar, þotueldsneyti og ýmislegt annað miður geðslegt. Áður fyrr vildu menn umfram allt skjótvirk efni en voru ekki alltaf meðvitaðir um skaðsemi þeirra.

Nú er brýn nauðsyn á að safnað verði allri fáanlegri vitneskju um þá staði sem kunna að vera hættusvæði meðan enn eru á lífi menn sem hafa unnið við herstöðina frá upphafi og búa yfir vitneskju um hvar slík eiturefni hafa verið urðuð eða farið niður fyrir slysni eða gáleysi.``

Ég get getið þess hér að eitt aðaltilefni þess að ég flutti upphaflega þessa tillögu var að nokkrir menn sem lengi höfðu unnið á Keflavíkurflugvelli, vinir mínir, höfðu samband við mig og höfðu áhyggjur vegna slíkra mála þar sem þeir höfðu jafnvel unnið við urðun eða tekið þátt í að hella niður efnum sem þeir í þá tíð voru ekki meðvitaðir um hversu skaðsamleg voru. Þeir höfðu sem sagt áhyggjur af því að vitneskja um þessa urðunarstaði eða þá staði þar sem þessi efni hefðu verið látin fara niður í jarðveginn mundi glatast með þeim. Og þetta voru fullorðnir menn þá.

[14:45]

Þess vegna lagði ég til í framhaldinu að kortlögð yrði sú vitneskja sem fengist við að tala við þá menn og nákvæm efnagreining gerð á þeim jarðvegi sem menn óttuðust að væri mengaður.

,,Meðan niðurstaða slíkrar könnunar liggur ekki fyrir getum við aðeins borið aðstæður hér saman við þær sem nú eru þekktar frá öðrum herstöðvum þar sem slíkar rannsóknir hafa verið gerðar, t.d. í Þýskalandi, á Guam og Filippseyjum, en þar hafa víða komið fram alvarleg mengunartilfelli og þurft hefur að leggja í mikinn kostnað við hreinsun jarðvegs.

Þess má geta að í sýnum sem tekin hafa verið á Heiðarfjalli, þar sem ratsjárstöð var þó aðeins rekin í 15 ár, hefur greinst töluvert af baneitruðum þungmálmum, t.d. kadmíum, krómi, blýi og nikkel.

Árið 1989 lét bandaríski herinn gera mælingar á grunnvatnssýnum sem tekin voru á svæðum sem á kortum í fylgiskjali eru merkt með svörtum punktum. Rannsóknin tók aðeins til tveggja hættulegra efna, TCE, eða tríklóretýlen, og PCE, eða perklóretýlen. Rannsóknin leiddi í ljós að efnið tríklóretýlen fannst þá á útbreiddu svæði við flugvöllinn og víða yfir hættumörkum, m.a. við þáverandi vatnsból Njarðvíkinga og hersins, eins og marka má af korti 1. Efnið TCE er talið geta valdið ýmsum alvarlegum sjúkdómum, svo sem hjartagöllum, og vera krabbameinsvaldandi.``

Í framhaldi af þessu langar mig að segja frá óformlegri könnun sem gerð var árið 1973 á búsetu barna í Arizona sem fæddust með hjartagalla. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að um þriðjungur þessara barna komu frá litlu svæði í suðvesturhluta borgarinnar Tucson. Við nánari athugun 1981 kom í ljós að á þessu svæði var drykkjarvatn mengað eiturefnum og þar á meða eiturefninu TCE. Þetta eiturefni, tríklóretýlen, er lífrænt leysiefni sem getur haft alvarleg áhrif á miðtaugakerfi manna og truflað illa starfsemi hjarta og lifrar. Efnið getur borist í líkamann gegnum húðina auk hinnar hefðbundnu leiðar með mat og drykk. Rannsóknir hafa líka verið gerðar á efninu sem krabbameinshvata.

Á vegum barna- og hjartadeildar háskólasjúkrahússins í umræddri borg í Arizona var því gerð faraldursfræðileg rannsókn á börnum með hjartagalla sem fæðst höfðu þar í dalnum frá 1. jan. 1969 til 31. des. 1987. Tekin voru viðtöl við foreldra 707 barna með meðfæddan hjartagalla. Í ljós kom að á meðal barna þeirra foreldra sem drukkið höfðu mengað vatn voru líkurnar þrefalt meiri á hjartagöllum en í börnum foreldra sem bjuggu utan við vatnsveitusvæðin. Árið 1981 var hinum menguðu brunnum lokað og vatn tekið af öllu þessu vatnasvæði. Brá þá svo við að meðfæddum hjartagöllum í suðvesturhluta borgarinnar fækkaði til samræmis við meðaltalið í öllum dalnum.

Í Santa Clara-héraði í Kaliforníu var gerð önnur rannsókn 1980--1982 þar sem aukin tíðni andvana fæðinga var rakin til TCE-mengunar drykkjarvatns. Og til að klykkja út með í þessari óhugnanlegu upptalningu er þess að geta að of mikið nítrat í drykkjarvatni, sem er eitt af því góðgæti sem einmitt hafði fundist í drykkjarvatninu á Suðurnesjum, hefur mjög alvarleg áhrif á súrefnisflutningsgetu blóðsins, svo kallað Blue Baby Syndrome.

Þegar ég flutti tillöguna fyrst var skammt um liðið frá því að nýtt vatnsból hafði verið tekið í notkun fyrir Suðurnes, sem var gert í framhaldi af þeirri rannsókn sem ég vitna til. Þá hafði undanfarin fimm ár á undan orðið vart við óeðlilega tíðni fæðingargalla hjá fyrirburum í Sjúkrahúsi Keflavíkur. Hann nefndist Potters Syndrome og lýsir sér í nýrnaleysi barna sem leiðir alltaf til dauða. Sjö tilfelli munu vera staðfest á því fimm ára tímabili sem um ræðir. Ég ræddi málið við landlækni á sínum tíma og hann staðfesti þetta og sagði að það væri vægast sagt mjög furðulegt því að þessi sjúkdómur væri svo fáheyrður að hann ætti varla að geta komið fyrir hér á landi. Ég get ekki fullyrt að um bein tengsl hafi verið að ræða en ég taldi þá og tel enn að faraldursfræðileg athugun hefði þurft að fara fram á þessu. Auk þess tel ég að fara þurfi fram faraldursfræðileg rannsókn á tíðni annarra hugsanlegra mengunarsjúkdóma á Suðurnesjum.

Ég var að ræða um tríklóretýlen sem er talið geta valdið hjartagöllum og þar að auki vera krabbameinsvaldandi en hitt efnið sem rannsakað var, perklóretýlen (PCE), er baneitrað, en það fannst einnig í nokkrum mæli í grunnvatnssýnum sem tekin voru á þessu svæði. Þessi efni eyðast ekki, það er bara svo einfalt. Þetta eru svokölluð þrávirk leysiefni. Það verður að hreinsa jarðveginn því annars breiðast efnin sífellt meira út.

Það má ljóst vera að leiði niðurstaða jarðvegs- og grunnvatnsrannsókna í ljós að á svæðinu fyrirfinnist eiturefni í einhverjum mæli verður að gera þá kröfu að herinn hreinsi upp eftir sig áður en lengra er haldið. Þessi krafa á í raun ekki aðeins við um Suðurnes heldur og aðra staði á Íslandi þar sem herinn hefur haft umsvif.

Þess má geta að á undanförnum árum hafa þýsk yfirvöld gert l.595 skaðabótakröfur á hendur Bandaríkjaher vegna mengunar frá herstöðvum í Þýskalandi og þegar hafa verið greiddar skaðabætur vegna tæplega 1.100 þessara mála þegar ég athugaði þetta síðast, en nokkuð er um liðið. Þeim kann að hafa fjölgað.

Nýlega hefur það gerst að bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ treystu sér ekki til að taka við svæði sem herinn vildi skila, þ.e. svokölluðu Nickel-svæði sem liggur að Keflavík, vegna gruns um mikla mengun á svæðinu, m.a. vegna þess að það var vitað að þarna hafði farið niður mikil olía á árum áður. Herinn neitaði að fjármagna rannsókn á svæðinu svo að utanrrn. tók að sér að tryggja fjármögnun á rannsókn á jarðvegssýnum sem tekin voru á umræddu svæði. Í ljós kom að sýnin voru mikið menguð af olíu hvers konar --- sem kom reyndar ekki á óvart --- en einnig var nokkur blýmengun þar á afmörkuðum svæðum. Það er mikilvægt að samningar takist um að herinn hreinsi þarna upp eftir sig áður en tekið verði við þessu landi. Engar rannsóknir voru gerðar nú á grunnvatni á þessu svæði en víst er að það er mengað eins og rannsóknin frá l989 benti til.

Í bandarískum lögum er kveðið á um að Bandaríkjamenn fari að kröfum viðkomandi þjóðar í umhverfismálum. Okkur ber því að gæta hagsmuna þegna okkar, krefjast þess að þessi mál verði rannsökuð og viðeigandi ráðstafanir gerðar til úrbóta svo landið verði aftur nýtanlegt.

Ég vil sérstaklega benda á fylgiskjal gagnmerkt sem fylgir með frv. á bls. 3 og 4 sem sýnir mjög glöggt útbreiðslu þessarar mengunar á tríklóretýlen og perklóretýlen sem komu í ljós í þessari rannsókn sem herinn gerði árið 1989.