Rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 14:59:02 (5419)

2000-03-16 14:59:02# 125. lþ. 81.9 fundur 391. mál: #A rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[14:59]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil minna á að byggð hefur verið á þessu svæði í áratugi. Sumt af þessu svæði er enn innan girðingar og blýmengun mældist þar sem tankar eru, það er sem sagt mengun sem kemur af málningu. Það hrynur af þeim þegar verið er að skrapa þá og mála þá upp aftur og málningin fer í jarðveginn og út af fyrir sig er það einhver mengun.

Ég hef aldrei heyrt að olíumengun væri stórhættuleg þó að einhver steinolíumengun eða dísilolíumengun væri á svæðum. Ég hef ekki heyrt að það væri hættuleg mengun, enda er hún lífræn og í sjálfu sér mjög auðvelt að þrífa hana upp. Auðvitað tek ég undir að þrífa eigi upp það sem mengað er. En það er ekki það mikið að fara þurfi út í enn fleiri rannsóknir og enn meiri tafir á þessu máli.

[15:00]

Það má heldur ekki gleyma því að svona PCB-umræða --- ég reikna með að hv. þm. hafi meint PCB í staðinn fyrir TCE. Ég er samt ekki alveg viss. (SJóh: Nei, það er nú ekki alveg ...) Ókei. En þetta eru allt saman spurningar um þrávirk efni, lífræn efni sem eru hættuleg. Og bandaríski herinn t.d. hreinsaði upp allt PCB sem var á þeirra vegum og eyddi því en aftur á móti hefur PCB-mengun verið vandamál miklu víðar um landið og þá ekkert síður hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég ætla bara að benda hv. þm. á að við rannsókn lyfjadeildar Háskólans þá fannst t.d. mjög mikil PCB-mengun á Álftanesi hjá forsetasetrinu. Það fannst í æðarfuglum á sínum tíma og það er miklu víðar hægt að finna PCB eða þrávirk lífræn efni sem eru hættuleg í náttúrunni. Auðvitað eigum við að reyna að eyða því og það hefur tekist ágætlega suður frá.

En mér finnst ástæðulaust að vera að halda uppi miklum hræðsluáróðri vegna þessa svæðis.