Rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 15:02:58 (5421)

2000-03-16 15:02:58# 125. lþ. 81.9 fundur 391. mál: #A rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[15:02]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Flutningsmenn þessarar tillögu hafa vakið máls á mikilvægu máli sem varðar okkur öll eins og önnur umhverfismál í okkar samfélagi. Það sama á við um þá tillögu sem hér verður rædd á eftir sem fjallar um rannsókn á umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu.

Vera varnarliðsins byggir á varnarsamningnum frá 1951 sem hefur lagagildi hér á landi. Samningurinn kveður skýrt á um að ekkert ákvæði hans beri að skýra á þann veg að raski úrslitayfirráðum Íslands yfir íslenskum málefnum. Í varnarsamningnum er nánar greint hvernig Ísland og Bandaríkin annast sameiginlegar varnir landsins. Framlag Íslendinga er að leggja til aðstöðu í landinu sem ríkin verða ásátt um að nauðsynleg sé til varna landsins. Af þessu leiðir að um mengun af völdum varnarliðsins fer að ákvæðum íslenskra laga um umhverfismál eins og þau eru á hverjum tíma. Vilji Bandaríkjamenn gera strangari kröfur í tilteknum efnum er það samþykkt en tilslakanir frá íslenskum lögum eru ekki veittar.

Öll venjubundin starfsemi manna veldur einhverri röskun á umhverfinu. Á sviði umhverfismála hafa orðið stórstígar framfarir á undanförnum árum og vitneskja okkar allra um hættur sem fylgja óvarlegri umgengni um umhverfið hefur aukist. Mat á umgengni varnarliðsins um varnarsvæðið verður því að taka mið af því hvað íslensk lög og venjur hafa áskilið í áranna rás. Þannig verður t.d. við umræðu um það hvort förgun sorps hjá varnarliðinu hafi verið ásættanleg að líta til þess sem tíðkanlegt var í landinu á þeim tíma sem til umræðu var. Sé þessa gætt mun koma í ljós að umgengni varnarliðsins um varnarsvæðin hefur á hverjum tíma verið í samræmi við þær kröfur sem gerðar hafa verið.

Meðan varnarliðið hefur svæði þessi í sinni umsjá getur það jafnt sem aðrir vörsluaðilar lands þurft að grípa til aðgerða að boði íslenskra heilbrigðisyfirvalda til að fyrirbyggja mengun eða til að hreinsa eldri mengun. Varnarliðið ber ábyrgð á mengun sem stafar af frágangi sorps þess sem frá því hefur komið og urðað hefur verið á varnarsvæðunum eða fargað þar með öðrum hætti. Ljóst er að ekki er alltaf einfalt að fjarlægja sorp úr gömlum haugum og öruggara kann að vera að láta kyrrt liggja og verja hauginn svo sem kostur er.

Samkvæmt íslenskum lögum er hins vegar ekki til að dreifa ótakmarkaðri ábyrgð í tíma á mengun af þessum toga heldur er tjónvaldur ábyrgur fyrir tjóni í tíu ár samkvæmt íslenskum reglum. Þá er það almenn regla, ef fram kemur mengunartjón í nágrannalöndum okkar, að tjón frá sorpi í jörðu er ekki bótaskylt ef frágangur þess var í samræmi við fyrirmæli yfirvalda á þeim tíma sem gengið var frá sorpinu eða ef urðunarstað er lokað í samræmi við gildandi reglur.

Í tillögum þeim sem eru til umræðu virðist látið að því liggja að mikil óvissa sé um mengun frá starfsemi varnarliðsins og eftirliti sé þar áfátt. Þetta er alrangt. Skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd varnarsvæða fjallar um öll umhverfismál á varnarsvæðum, bæði að því er varðar varnarliðið og aðra aðila. Nefndin gætir þess að ákvæðum íslenskrar löggjafar um skipulags-, bygginga- og umhverfismál sé fylgt.

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur sinnt eftirliti með umhverfismálum á varnarsvæðum frá 1989 og greiðir varnarliðið fyrir þann kostnað sem af því hlýst. Heilbrigðiseftirlitið hefur starfsmann sem sinnir þessum verkefnum sérstaklega og starfar náið með umhverfisdeild varnarliðsins. Umhverfisdeild varnarliðsins hefur með höndum innra eftirlit á varnarsvæðunum og starfa þar á annan tug manna í dag. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur eftirlit með umhverfisdeildinni og að hún starfi í samræmi við íslenskar reglur.

Í greinargerð með tillögunni er sérstaklega fjallað um meinta mengun í kringum Keflavíkurflugvöll. Að því er varðar stöðu mála á neðra Nickel-svæði fyrir ofan Reykjanesbæ, sem hér hefur komið til umræðu, hefur viðurkennt bandarískt ráðgjafarfyrirtæki komist að þeirri niðurstöðu að nokkrir staðir væru á svæðinu þar sem jarðvegsmengun er fyrir ofan viðmiðunarmörk. Um er að ræða olíuefni, blý og PCB. Svæðin eru einangruð og er gerð og magn mengandi efna ekki talið að mati skýrsluhöfunda koma í veg fyrir hreinsun með frekar einföldum hætti. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur komist að sömu niðurstöðu og staðfest að svæðið sé hæft til íbúðabyggðar eftir hreinsun. Gert er ráð fyrir að unnt sé að hreinsa jarðveginn með tiltölulega litlum tilkostnaði.

Að því er varðar TCE og PCE-mengun, sem jafnframt hefur komið hér til umræðu, í kringum Keflavíkurflugvöll, ber að hafa í huga að sú mengun hefur lengi verið þekkt og var ástæða þess að varnarliðinu var gert að fjármagna gerð nýrrar vatnsveitu eftir að þessi efni fundust í grunnvatni árið 1989. Ekkert nýtt hefur komið fram sem bendir til að frekari hætta sé af þessum efnum eða þörf sé frekari rannsókna eða aðgerða.

Herra forseti. Tillöguflytjendur hafa hér hreyft mikilvægu máli. Mér er sönn ánægja að upplýsa að utanrrn. hefur vakandi auga yfir mengunarmálum vegna starfsemi varnarliðsins og það er fylgst náið með hugsanlegri mengunarhættu. Ég tel hins vegar að engin efni séu til þess að á þessu stigi fari fram umfangsmiklar rannsóknir á stöðu mála og ég tel að þessi málefni séu í allgóðu lagi á því svæði sem hér hefur verið til umræðu.