Rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 15:09:49 (5422)

2000-03-16 15:09:49# 125. lþ. 81.9 fundur 391. mál: #A rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[15:09]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna ræðu hæstv. utanrrh. sem staðfestir í rauninni það sem ég var að segja hér áðan og staðfestir að af hálfu varnarliðsins og íslenskra stjórnvalda, heilbrigðiseftirlits og umhverfisdeildar varnarliðsins, er mjög vel að málum staðið. Það er farið að ýtrustu kröfum og þess gætt að heilbrigði manna og dýra sé ekki í neinni hættu út af þessari starfsemi, og það er að sjálfsögðu vel. En auðvitað hafa alltaf og geta alltaf gerst einhver slys og við þeim hafa varnarliðið og utanrrn. brugðist mjög afgerandi á hverjum tíma.

Ég fagna því að komið skuli vera að því varðandi svokallað Nickel-svæði, sem er framtíðarbyggingarsvæði og hefur verið hugsað sem slíkt í Reykjanesbæ, að hæstv. utanrrh. álíti ekki ástæðu til mikilla rannsókna til viðbótar við þær sem hafa þegar verið gerðar og að í raun sé mjög skammt í að hægt verði jafnvel að afhenda svæðið bæjaryfirvöldum þannig að hægt sé að nýta það til uppbyggingar fyrir bæinn, bæði fyrir íbúðabyggingar og annað sem bæjaryfirvöld hafa áhuga á að gera þar.

Herra forseti. Mig langaði í framhaldi af því að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hægt sé að sjá fyrir dagsetningar á því hvenær afhending Nickel-svæðisins efra yrði hugsanleg til bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ að undangenginni hreinsun á þeirri mengun sem talið er að þurfi að hreinsa áður.