Rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 15:12:05 (5423)

2000-03-16 15:12:05# 125. lþ. 81.9 fundur 391. mál: #A rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[15:12]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki nefnt neinar dagsetningar í því sambandi. Ég og mitt ráðuneyti höfum lagt áherslu á að hægt verði að taka þetta svæði undir íbúðabyggð eins fljótt og nokkur kostur er. Þetta svæði stingur mjög í augu og ég skil hv. þm. sem býr þar í nágrenninu að hann sé áhugasamur um að þar verði breyting á. Þarna eru leifar af ýmsu sem þarf að fjarlægja og þetta er eitt af því sem við þurfum að ráða bót á og ég vil fyrir mitt leyti leggja á það áherslu að það verði sem fyrst.

Því miður þá get ég ekki nefnt neina dagsetningu í því sambandi en við í utanrrn. munum gera okkar til þess að það geti orðið sem fyrst þannig að þetta svæði geti nýst sem framtíðarbyggð og íbúum á þessu svæði sem þurfa virkilega á því að halda, enda mun það taka miklum stakkaskiptum. Það er afar ljótt í dag. En ég veit að þarna verður fagurt um að litast þegar þar verður komin byggð.