Rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 15:16:22 (5425)

2000-03-16 15:16:22# 125. lþ. 81.9 fundur 391. mál: #A rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[15:16]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er meðflutningmaður að þessari tillögu og jafnframt fyrri flm. að tillögu sem er á dagskrá á eftir um tengt málefni og ætla því ekki að lengja umræður um þetta mál. Ég vil aðeins þakka hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur fyrir frumkvæði hennar í þessum efnum. Hún hefur áður flutt þessa tillögu og fylgt málinu eftir. Ég tel ærna ástæðu til að mál þetta nái fram að ganga.

Við eigum það sameiginlegt, ég og hv. þm., að hafa bæði alist upp og búið í nágrenni við herstöð og þekkjum af eigin raun ýmislegt sem þeirri starfsemi fylgir. Miðað við það sem ég þekki til um meðferð úrgangs og önnur slík mál þá hef ég engin dæmi úr reynslusögu minni um jafnhirðuleysislega umgengni við land og náttúru og þá sem ég varð áhorfandi að þegar herstöð var á Heiðarfjalli við Langanes. Meðferð þeirra mála hefur kannski ekki verið til muna verri hjá hernum en var hjá okkur Íslendingum sjálfum og má til sanns vegar færa að þar fór ýmislegt úrskeiðis og þætti ekki gott til eftirbreytni í dag. Þó er ólíku saman að jafna vegna hinna hættulegu efna og ýmissa umsvifa sem hersetu fylgja, sem eru sjaldgæf eða ekki fyrir hendi þegar um borgaralega starfsemi og daglegt líf almennings er að ræða. Ég held að sá samanburður hljóti að verða hinum fyrrnefndu, þ.e. hernaðaryfirvöldunum eða hernum, mjög í óhag. Hjá þeim eru auðvitað á ferðinni mjög hættuleg efni sem fylgja umsvifum þeirra. Mengun út af ógætilegri meðferð eða hirðuleysislegri förgun á víðavangi getur því að sama skapi orðið alvarlegra mál. Ég hygg að þetta sé ekki ýkja umdeilt.

Ég held að það væri öllum fyrir bestu, varðandi svæðin í kringum Keflavíkurflugvöll, að koma þeim málum á hreint í eitt skipti fyrir öll með rækilegri rannsókn. Viðbrögðin við niðurstöðunum væru að hreinsa svæðin eins og mögulegt er og taka jafnvel eftir atvikum þátt í kostnaði sem af því hlýst o.s.frv. Ég held að hik bæjaryfirvalda við að taka við menguðum svæðum áður en allir lausir endar hafa verið hnýttir sé skiljanlegt í ljósi þess sem oft hefur komið upp eftir á í slíkum tilvikum. Ég minni þar á fordæmin frá Þýskalandi og Kanada þar sem risið hefur umfangsmikill málarekstur. Þau tilvik skipta þúsundum frekar en hundruðum þar sem yfirgefnar herstöðvar eða svæði sem hernaðarumsvifum tengjast hafa orðið deiluefni.

Ég tek því eindregið undir þessa tillögu og teldi skynsamlega ráðstöfun að samþykkja hana og einnig þá sem hér á eftir fylgir.