Rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 15:20:14 (5426)

2000-03-16 15:20:14# 125. lþ. 81.9 fundur 391. mál: #A rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll# þál., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[15:20]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu eða fjalla almennt um efni þeirrar þáltill. sem hér er til umræðu, um rannsókn á mengun í jarðvegi og grunnvatni við Keflavíkurflugvöll. Ég leyfi mér að vísa til ágæts svars hæstv. utanrrh. þar sem fram kemur að þessi mál, umhverfismál á Keflavíkurflugvelli eru í ágætum og eðlilegum farvegi, þ.e. í ágætu samstarfi utanrrn. við heilbrigðiseftirlit Suðurnesja og byggingar- og skipulagsnefnd varnarsvæðisins. Það hefur sýnt sig á liðnum árum, að þegar upp hafa komið vandamál hafa þau verið leyst farsællega og allir aðilar axlað ábyrgð sína. Í þeim efnum nægir að benda á úrlausnina varðandi vatnsból Suðurnesjamanna.

Í annan stað, herra forseti, vildi ég nefna að mér þótti það mjög lítt við hæfi hjá hv. flm. að blanda saman pólitísku starfi embættismanns á Suðurnesjum, eins og hún gerði hér, í faglega umræðu um umhverfismál á Keflavíkurflugvelli. Ég hygg að öllum sem til þekkja, og hv. málshefjanda einnig, sé fullkunnugt um að starfsfólk heilbrigðiseftirlits Suðurnesja gerir miklar kröfur og er afskaplega faglegt í öllum störfum sínum. Hvað þau gera síðan í frítímum sínum tel ég ekki koma málinu á nokkurn hátt við í umræðu hér. Ég hygg þó að það hafi verið yfirsjón hjá hv. þm., að missa þetta út úr sér.

Hins vegar vil ég nefna sérstaklega Nickel-svæðið sem hér hefur komið til umræðu. Rétt er að ítreka að varnarsvæðið nýtir ekki Nickel-svæðið með tilkomu Helguvíkur og það stendur þarna eins og illa gerður hlutur og er afskaplega til baga, er bæði sjónmengun og kemur ekki síður í veg fyrir þéttingu byggðar í Reykjanesbæ. Byggingar- og skipulagsyfirvöld í Reykjanesbæ hafa mjög sóst eftir því að nýta þetta svæði vegna lóðaskorts í Reykjanesbæ og jafnframt til að þétta byggð á milli Keflavíkur og Njarðvíkur. Það er með öðrum orðum, herra forseti, afskaplega aðkallandi að þessu svæði verði skilað. Ég vil lýsa sérstakri ánægju með hvernig utanrrn. hefur staðið að því í mjög góðu samstarfi við heilbrigðis- og bæjaryfirvöld á Suðurnesjum. Ég skil orð hæstv. utanrrh. þannig að nú styttist í að þetta ágæta svæði verði afhent Suðurnesjamönnum, öllum til mikillar ánægju.

Niðurstaðan er sú að málið sé í eðlilegum farvegi. Ég held að ekki sé hægt að líta öðruvísi á það. Að því er unnið faglega, menn fara yfir íslensk lög, embættismenn og pólitíkusar á Suðurnesjum vinna í því út frá íslenskum lögum og íslenskum forsendum og á svari hæstv. utanrrh. er ekki annað að heyra en það sé í eðlilegum farvegi og undir það tek ég.

Ég hef hins vegar ákveðnar efasemdir um það að gera í málflutningi hér úlfalda úr mýflugu. Við hljótum að treysta þar til bærum heilbrigðisyfirvöldum til að fjalla um málið og leggja blessun sína yfir það. Það hefur m.a. komið fram hjá bæjarstjórn Reykjanesbæjar að hún mun ekki taka við svæðinu fyrr en heilbrigðiseftirlit Suðurnesja leggur blessun sína yfir það. Það er eðlilegt og ég veit ég ekki annað en að mjög gott samstarf hafi verið á milli varnarliðsins og utanrrn. Það er hinn eðlilegi og faglegi farvegur og mér finnst því óeðlilegt að gefa í skyn að vandamálið sé meira en raun virðist bera vitni. Þetta er hin eðlilega niðurstaða og nái menn samkomulagi um hana með faglegum rökum þá er það í lagi.

En ég fagna því viðhorfi sem fram kom hér hjá hæstv. utanrrh. hvað þetta svæði varðar.