Rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 15:34:46 (5429)

2000-03-16 15:34:46# 125. lþ. 81.9 fundur 391. mál: #A rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll# þál., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[15:34]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Í síðari ræðu hv. málshefjanda fannst mér koma fram dálítil vankunnátta á málefninu, svo það sé nú bara orðað eins og er við hæfi. Meðal annars kemur fram að það þurfi að hennar mati að kanna betur ástandið og eyða þeim jarðvegi sem hafi mengast, sérstaklega á Nickelsvæðinu.

En út á hvað heldur hv. þm. að viðræður milli Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, varnarliðsins og utanrrn. gangi annað en einmitt þetta? Hver er það að mati hv. þm. sem á að leggja mat á þetta? Hv. þm. segir ítrekað: Það á að kanna betur. Gott og vel.

Í því felst að sjálfsögðu gífurlegt vantraust á Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja sem er vel búið vel menntuðu fagfólki sem gegnir þessu hlutverki. Það liggur ítrekað fyrir að bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ muni ekki taka við þessu svæði fyrr en Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur lagt blessun sína yfir það.

Ég veit ekki hvort hv. þm. telur það skynsamlegra að kanna það betur á grundvelli sögusagna einhverra sem fyrir áratugum unnu þarna eða blanda inn í afstöðu sinni til varnarliðsins ellegar þá að láta fagfólkið, eins og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja sem samkvæmt stjórnsýslu á að fjalla um svona --- er ekki skynsamlegra að láta slíka aðila meta það hvers eðlis mengunin er, hversu mikil og hvenær er eðlilegt að taka við?

Að sá tortryggni, eins og ég tel hv. þm. hafa verið að gera, er einungis til þess að seinka því að Nickel-svæðinu verði skilað og er vantraust á fagfólkið hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja.