Rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 15:38:37 (5431)

2000-03-16 15:38:37# 125. lþ. 81.9 fundur 391. mál: #A rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll# þál., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[15:38]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Við þetta er í sjálfu sér litlu að bæta en ég ítreka að í málflutningi hv. þm. tel ég hafa komið fram tortryggni og í rauninni vantraust á Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja með því að hv. þm. í rauninni segir: Ég tel að eigi að kanna og rannsaka betur. Það er sem sagt persónulegt og huglægt mat hv. þm. sem á að ráða því hversu langt rannsóknir eigi að ganga, versus það að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja er það fyrirbrigði í stjórnsýslunni sem leggur mat á þær rannsóknir sem lagðar eru fyrir. Og það er ekki fyrr en þá sem bæjaryfirvöld munu taka við svæðinu.

Í þessu felst ákveðið vantraust á heilbrigðiseftirlitið, a.m.k. hefur hv. þm. sig örlítið upp fyrir Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja og telur sig betur í stakk búna til að leggja það mat á.

Mér er hins vegar fullkunnugt um það að starfsfólk Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja vinnur á mjög faglegum nótum en grun hef ég um að hv. þm. kryddi mat sitt örlítið pólitískt í afstöðu sinni m.a. til varnarliðsins.