Rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 15:40:11 (5432)

2000-03-16 15:40:11# 125. lþ. 81.9 fundur 391. mál: #A rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll# þál., Flm. SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[15:40]

Flm. (Sigríður Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mikið getur maður nú þakkað fyrir að hér í þinginu skuli vera þingmenn sem krydda aldrei mál sitt eða hugsanir sínar pólitísku mati eins og hv. þm. Hjálmar Árnason. Það skyldi þó aldrei vera að það hafi kryddast eitthvað af pólitísku mati þegar hann heyrði ofheyrnir hérna þegar ég hélt ræðu mínu um þessi efni og heyrði mig segja eitthvað sem sáði tortryggni um störf Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Það var mér ekki í huga og kom aldrei fram í máli mínu, hvorki fyrr né síðar.

Hvort ég hafi hins vegar það mat sjálf að frekari rannsóknir þurfi að fara fram á svæðinu, það gæti alveg eins verið að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja væri mér sammála um það. Og það væri kannski gott að hv. þm. kynnti sér það hvaða meiningar Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur í þeim efnum áður en hann fer að gera mér upp pólitískt krydd í tilveruna hér á Alþingi.