Umhverfisáhrif af völdum erlendrar hersetu

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 15:53:31 (5436)

2000-03-16 15:53:31# 125. lþ. 81.10 fundur 392. mál: #A umhverfisáhrif af völdum erlendrar hersetu# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[15:53]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um rannsókn á áhrif af umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu. Flm. ásamt mér er hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir.

Tillögugreinin er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta fara fram rannsókn á umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu og hernaðarumsvifa á Íslandi og hættum sem eru núverandi hernaðarumsvifum samfara. Einnig verði gerð úttekt á lagalegum álitaefnum þessu tengdum.

Rannsókn beinist sérstaklega að eftirfarandi þáttum:

1. grunnvatnsmengun,

2. jarðvegsmengun,

3. frágangi spilliefna og sorphauga,

4. umhverfishættu sem stafar af núverandi hernaðarumsvifum,

5. réttarfarslegum hliðum málsins varðandi skaðabótaskyldu erlendra og/eða íslenskra stjórnvalda gagnvart landeigendum í þeim tilfellum sem mengun hefur orðið og skyldu þeirra til að hreinsa menguð svæði.

Jafnframt verði reynt að áætla kostnað við hreinsun þeirra svæða sem hafa orðið fyrir mengun.``

Þessi tillaga er að því leyti nátengd þeirri sem hér var á dagskrá síðast að þar var til umfjöllunar eitt svæði af nokkrum sem til greina koma, þ.e. nágrenni herstöðvarinnar á Miðnesheiði. Ég vísa til þess sem áður sagði um stöðu mála á því svæði og þær upplýsingar sem fyrir liggja úr rannsóknum, að svo miklu leyti sem þær hafa farið fram, á mengun af ýmsu tagi: grunnvatnsmengun, jarðvegsmengun og hættulegum efnasamböndum sem þar hafa verið greind og mæld.

Erlendir herir hafa víðar drepið niður fæti hér á landi frá því að þeir hófu innreið á árum síðari heimsstyrjaldar. Á árunum í kringum 1990 var staðfest mikil mengun á svæði þar sem starfrækt var ratstjárstöð á Heiðarfjalli í landi Eiðis á Langanesi um 15--16 ára skeið, frá árunum 1954 fram um 1970. Satt best að segja, herra forseti, er viðskilnaðurinn á þeim stað með miklum ólíkindum svo ekki sé fastar að orði kveðið. Landeigendur hafa um árabil leitað réttar síns en koma alls staðar að lokuðum dyrum, hvort sem heldur er hjá bandarískum eða íslenskum stjórnvöldum. Svo virðist sem meira að segja íslenska réttarkerfið meini þeim að fá umfjöllun um sín mál. Tilraunum þeirra til að fá málið tekið upp fyrir íslenskum dómstólum er sömuleiðis vísað frá.

Staða málsins er hins vegar sú, svo ótrúlegt sem það kann að virðast, að ófrágengnir sorphaugar, spilliefni og mengun af ýmsum toga eru á fleiri en einum og fleiri en tveimur stöðum á þessu svæði eða í nágrenni við það. Það er í algjöru leyfisleysi og óþökk landeigenda en svo á að heita að landinu hafi verið skilað. Þar tekur þó steininn úr að mínu mati, herra forseti, sá samningur --- ef samning skyldi kalla --- sem íslensk stjórnvöld gerðu við bandarísk hermálayfirvöld og stjórnvöld sem fría Bandaríkjamenn allri ábyrgð á viðskilnaði þeirra á þessu svæði. Mér er mjög til efs að slíkir gjörningar fái staðist og að þannig sé hægt að svipta íslenska borgara því að ná rétti sínum eins og þar virðist ætlunin.

Á Straumnesfjalli standa mikil mannvirki auð og hafa verið í niðurníðslu frá því að þar var starfrækt ratsjárstöð. Við ratsjárstöðina á Bolafjalli sem tók við hlutverki stöðvarinnar á Straumnesfjalli hafa orðið mengunarslys, samanber alvarlegan olíuleka sem varð haustið 1989. Þá er ljóst að frágangur sorphauga á svæði ratstjárstöðvarinnar á Stokksnesi er algjörlega ófullnægjandi og ekki liggur fyrir hverjum ber að fjarlægja þau mannvirki sem þar hafa verið yfirgefin og eru að grotna niður. Svo merkilega vill nú til að síðast í gærkvöldi komu fréttir af samþykkt bæjarstjórnar Hornafjarðarbæjar þar sem þess er krafist að yfirvöld hlutist til um að viðkomandi mannvirki verði rifin og fjarlægð enda stafi af þeim bæði sjónmengun og hætta og óþrifnaður af ýmsum toga. Ber þá vel í veiði að í hlut á sjálfur heimabær hæstv. utanrrh. og skulum við ætla að málaleitan heimamanna hafi náð eyrum hans.

Loks má nefna að ratsjárstöðin á Gunnólfsvíkurfjalli á Langanesi stendur upp af vatnsbóli Þórshafnar og kom til deilna milli heilbrigðisyfirvalda og forsvarsmanna stöðvarinnar um það mál á sínum tíma.

Þetta mál, herra forseti, kemur þannig við sögu á þó nokkuð mörgum stöðum á landinu. Það gefur tilefni til að farið sé yfir þessi mál í heild sinni, umhverfisáhrifin metin eins og tillagan gerir ráð fyrir og öll atriði málsins krufin til mergjar. Með því að gera það, herra forseti, ætti fást niðurstaða sem væri síðan fordæmisgefandi gagnvart því sem síðar kann að koma upp í þessum efnum.

[16:00]

Áður hefur komið fram í umræðunni og það er rétt að ítreka það að erlendis hafa málin víðast hvar verið að þróast í þá veru að hernaðaryfirvöld, þeir sem ábyrgð hafa borið á herstöðvum eða umsvifum herja, bera einnig ábyrgð á þeim umhverfisspjöllum sem þar hafa orðið og hafa í vaxandi mæli orðið að greiða allan kostnaðinn af því sem því fylgir að hreinsa upp eftir slíka starfsemi. Sem dæmi má taka að á árinu 1992 var um 90 milljörðum íslenskra króna varið til slíkra verkefna í heiminum að áætlað er.

Mengun hefur mjög víða verið staðfest og verið fylgifiskur starfsemi af þessu tagi. Má þar taka fjölmargar herstöðvar, yfirgefnar eða enn þá starfræktar herstöðvar, í Þýskalandi en þar munu mál sem upp hafa komið og tengjast þessum hlutum vera um 1.500 talsins. Það má nefna Suður-Kóreu, Filippseyjar, eyjuna Guam og síðast en ekki síst má nefna Kanada þar sem umfangsmikil málaferli eða deilumál hafa nú leitt til þeirrar niðurstöðu að kanadíska alríkisstjórnin hefur í kyrrþey í raun og veru eða þannig að lítið bar á samið um það við stjórnvöld norðursvæða Kanada, hið nýja sjálfstjórnarsvæði Nunavut, að reiða fram miklar fjárhæðir til þess að hreinsa upp mengað land, mengaðan jarðveg og fjarlægja hættuleg efni úr yfirgefnum eða enn þá starfræktum herstöðvum á því svæði. Ég hygg að sá samningur hafi verið upp á um 230 millj. kanadískra dollara.

Einnig var gerður samningur um þátttöku Bandaríkjamanna í hreinsun herstöðva á norðurslóðum sem að vísu var því miður tafin af hinu íhaldssama öldungadeildarþingi Bandaríkjanna.

Herra forseti. Ég hygg að ekki sé síst ástæða til þess að fara ofan í réttarfarslega hlið þessa máls. Það er auðvitað ekki hægt að una því að aðstæður manna séu eins og þær sem lesa má út úr þrautagöngu eigenda jarðarinnar Eiðis á Langanesi í samskiptum sínum við stjórnvöld og réttarkerfið. Það getur ekki verið svo, herra forseti, að landeigendur séu sviptir með öllu möguleikum til þess að ná rétti sínum, fá mál sín upp tekin og um þau fjallað og réttilega í þeim dæmt. Hvað sem um þau málsatvik eða málsaðstæður má segja að öðru leyti, og ætla ég ekki að blanda þeim sérstaklega inn í þetta mál, þá er eitt víst og það er að það gengur ekki í réttarríki að stjórnvöld semji rétt af þegnum sínum og rýri þannig eignir manna að þeir komi þar engum vörnum við. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh. ef hann nær að hlýða á mál mitt og ég veit að hann er hér á mælendaskrá: Hefur hæstv. utanrrh. kynnt sér sögu þess máls? Telur hæstv. utanrrh. að það gangi í réttarríki að menn séu settir í þær aðstæður eins og uppi eru í málefnum eigenda jarðarinnar Eiðis, að þeir eigi að sitja þar uppi með mengunina og viðskilnaðinn eins og hann er, óbættir hjá garði, og hafi engar leiðir til þess að leita réttar síns? Yrði það niðurstaða dómstóla að þeim bæri ekki réttur í þessum efnum, væri það þó niðurstaða löglega, skulum við ætla, fram gengin eða fengin, af þar til bærum yfirvöldum. En að málin geti legið afvelta eins og gildir í því tilviki er auðvitað algerlega óþolandi. Það kann vel að fara svo að í fleiri tilvikum reyni á þetta á næstunni. Segjum nú svo að ekki náist neitt samkomulag um yfirtöku landeigenda á svæðunum í kringum Keflavíkurflugvöll. Hvernig á þá að fara með þau mál? Verður ekki að vera einhver farvegur fyrir úrlausn deilumála af því tagi og hægt að setja þá hluti niður? Ég held að þeir tímar, herra forseti, séu liðnir að stjórnvöld geti farið með þessi mál eins og þeim sýnist og landsmenn, almenningur, landeigendur eða sveitarfélög láti bjóða sér slíkt að ekki sé hægt að fá niðurstöðu í mál af þessu tagi bara af því að í hlut eigi íslenska ríkið annars vegar og hinir voldugu samstarfsaðilar á hina hliðina, þ.e. Bandaríkjaher og bandarísk stjórnvöld og sá þagnarmúr sem um þessi samskipti hefur verið lukinn. Það gengur ekki, herra forseti. Þeir tímar eru liðnir alls staðar annars staðar. Þar þykir sjálfsagt mál að menn sæki rétt sinn í þessum efnum og náist hann ekki fram í frjálsum samningum þá hafa menn iðulega knúið hann fram í gegnum dómstóla og þeir tímar hljóta þá að vera handan við hornið á Íslandi að slíkt verði gert af okkar hálfu. Mér er ómögulegt að sjá að íslenskir dómstólar geti daufheyrst við því út í það endalausa að taka slík mál fyrir. Þá er orðið eitthvað meira en lítið brogað í okkar réttarfari.

Rétt í lokin og til gamans, herra forseti, þá hafa ýmsir komið að þessu máli í gegnum tíðina. Það vill svo til að ég hef í höndunum bréf sem þáv. hæstv. umhvrh. og núverandi formannsefni Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, ritaði ekki ómerkari manni en sjálfum William Perry varnarmálaráðherra Bandaríkjanna í marsmánuði 1995 þar sem hann reyndi að koma að málefnum landeigenda jarðarinnar Eiðis og vekja athygli bandarískra stjórnvalda á viðskilnaði Bandaríkjahers þar og hvernig réttarstaða landeigendanna væri þar fyrir borð borin. Ekki veit ég hverjar urðu lyktir eða afdrif þeirra bréfaskrifta eða hvort við þeim bárust nokkur svör. En hinu finnst mér, herra forseti, nauðsynlegt að halda til haga að hvað sem líður samskiptum íslenskra og bandarískra stjórnvalda í þessum efnum og þó svo menn vilji halda í heiðri það sem hæstv. utanrrh. kom inn á fyrr í umræðum í dag, að við eigum auðvitað ekki að heimta peninga fyrir aðstöðu hér sem við leggjum til sem okkar hluta af þessum samskiptum, þá má ekki fara þvílíku offari í þeim efnum að réttur borgara ríkisins, landeigenda eða sveitarfélaga sé fyrir borð borinn og að við Íslendingar verðum af því sem kallast mætti sanngjörn leiðrétting okkar mála. Það þykir alls staðar annars staðar í kringum okkur sjálfsagður hlutur að menn í ljósi nýrra viðhorfa í umhverfismálum, í ljósi nýrra vísindalegra upplýsinga um hve hættuleg þessi mengun getur verið taki tillit til þessa. Þarna eiga í hlut í sumum tilvikum eins og t.d. á Heiðarfjalli bráðdrepandi efni, stórhættuleg og bráðdrepandi efni. Við svo búið má auðvitað ekki við standa, herra forseti, að allir hagsmunir okkar séu fyrir borð bornir í þessum efnum.

Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði þessari tillögu, þó svo hún mæli fyrir um aðgerðir sem umhvrh. mundi annast, vísað til hv. utanrmn. þar sem málefni varnarsvæðanna heyra stjórnsýslulega undir utanrrn. og eðlilegt er jafnframt að þessar tvær tillögur fylgist að.