Sjálfstæði Færeyja

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 15:03:08 (5442)

2000-03-20 15:03:08# 125. lþ. 82.1 fundur 387#B sjálfstæði Færeyja# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[15:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Við höfum undanfarna daga fylgst með því sem átti að verða upphaf viðræðna Færeyinga við dönsk stjórnvöld um samkomulag eða samning um tilhögun mála á leið Færeyinga til sjálfstæðis. Því miður virðist þetta upphaf ekki hafa tekist sem skyldi og mikið ber á milli sjónarmiða.

Nú er það svo að sjálfsögðu að þessi mál verða viðræðuaðilarnir að leysa sjálfir og ég er ekki að taka þetta upp hér á þeim grundvelli að við Íslendingar förum að blanda okkur inn í málin eða taka afstöðu. Hitt er annað mál að við höfum af mjög skiljanlegum ástæðum mikla samúð með málstað frænda okkar Færeyinga og viljum gjarnan styðja þá í því sem þeir ákveða eða vilja sjálfir.

Ég vil því leyfa mér, herra forseti, að spyrja hæstv. forsrh. hvort hæstv. ráðherra sjái að við Íslendingar eða íslensk stjórnvöld geti haft hlutverki að gegna í þessu sambandi eða miðlað málum á einhvern hátt. Er hæstv. forsrh. tilbúinn til að skoða það að Íslendingar bjóði fram aðstoð sína eða milligöngu annaðhvort nú þegar eða síðar ef það telst heppilegra, a.m.k. láta það liggja ljóst fyrir og yfirlýst af okkar hálfu að kæmi til okkar kasta eða yrði til okkar leitað þá værum við Íslendingar tilbúnir til að reyna að leika þarna hlutverk eða miðla málum eftir því sem aðstæður mundu bjóða?