Meðferð þjóðlendumála

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 15:25:39 (5456)

2000-03-20 15:25:39# 125. lþ. 82.1 fundur 390#B meðferð þjóðlendumála# (óundirbúin fsp.), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[15:25]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil vekja á því athygli að ég ruglaði engu saman. Mér er kunnugt um það að annars vegar er um að ræða þjóðlendunefnd, vinnuhóp í ráðuneytinu, og hins vegar svokallaða óbyggðanefnd.

En ber hins vegar svo að skilja að hæstv. landbrh. kunni ekki skil á þessu tvennu? Hann hefur upplýst það ítrekað að um þessi mál hafi verið fjallað í ríkisstjórninni. Hefur þá hæstv. fjmrh. ekki reynst kleift að útskýra þessa hluti, því að hér er haft beint eftir hæstv. landbrh.?

Að vísu finnst mér slæmt að þurfa að ræða þetta í hans fjarveru en ég hafði trú á að hann yrði hér. En hjá því verður ekki komist því að ítrekað eru fjölmiðlar að fjalla um málið á þessum grundvelli. Ég kalla því enn og aftur eftir því hvort hér sé um meira að ræða en tæknilega útfærslu og verklag og vinnubrögð í þessum efnum eða hvort hér sé um það að ræða að stjórnarflokkarnir séu einfaldlega ekki samstiga þegar kemur að stefnumörkun í þessu stóra máli, því að hér er um mjög veigamikið mál að ræða og mikilvægt að vel sé að verki staðið strax á fyrstu skrefunum.