Smíði nýs varðskips

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 15:31:39 (5461)

2000-03-20 15:31:39# 125. lþ. 82.1 fundur 391#B smíði nýs varðskips# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[15:31]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp og vekja athygli á því hér á hinu háa Alþingi. Ég er honum alveg sammála um að þetta er afskaplega mikilvægt mál.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið mun nefndin skila skýrslu og tillögum um gerð og búnað skipsins mjög fjótlega, jafnvel í lok þessarar viku. Von mín er að smíði geti hafist á næsta ári en hér er auðvitað um að ræða mjög dýrt skip og mikla framkvæmd. Ég hef ekki séð tillögur nefndarinnar enn þá né kostnaðaráætlun en því hefur verið fleygt að kostnaður við smíðina verði 2,5--3 milljarðar kr.

Enn er óleyst deila við Eftirlitsstofnun EFTA vegna ákvörðunar um að skipið verði smíðað innan lands en það er unnið að lausn þeirrar deilu. Ég vona að smíði nýs varðskips tefjist ekki um of. Þetta er mjög mikilvægt mál og þýðingarmikið fyrir hagsmuni okkar Íslendinga.