Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 15:38:19 (5463)

2000-03-20 15:38:19# 125. lþ. 82.10 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[15:38]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Samkvæmt gildandi ákvæðum laga um stjórn fiskveiða hafa eigendur krókabáta orðið að velja milli eftirfarandi kosta varðandi veiðar báta sinna:

1. Að stunda veiðar með handfærum eingöngu í 40 daga með þeirri takmörkun að þorskafli fari ekki yfir 30 lestir, miðað við óslægðan fisk.

2. Að stunda veiðar með línu og handfærum í 32 daga með þeirri takmörkun að þorskafli fari ekki yfir 30 lestir, miðað við óslægðan fisk. Hver dagur sem línuveiðar eru stundaðar hefur aukið vægi við útreikning sóknardaga.

3. Að stunda veiðar í 23 daga með handfærum eingöngu á tímabilinu 1. apríl til 31. október, án takmörkunar á heildarafla.

4. Að stunda veiðar með þorskaflahámarki sem byggist á veiðireynslu viðkomandi báts, án takmörkunar á sókn og afla í öðrum tegundum.

Með lögum nr. 1 14. janúar 1999, eins og þeim var breytt með lögum nr. 9 16. mars 1999, var ákveðið að frá og með fiskveiðiárinu sem hefst 1. september 2000 skyldi sú breyting verða að bátum sem veiðar stunduðu skv. 3. tölul. hér að framan yrði úthlutað sóknardögum til handfæraveiða. Þeim yrði heimilt að stunda veiðar á tímabilinu 1. apríl til 31. október. Þessir sóknardagar yrðu framseljanlegir milli báta samkvæmt ákveðnum reglum þar um. Afli á einu fiskveiðiári ákvarðaði fjölda sóknardaga á árinu á eftir samkvæmt reiknireglu 3. mgr. 6. gr. laga um stjórn fiskveiða.

Öðrum bátum, þ.e. bátum sem stunduðu veiðar samkvæmt 1., 2. og 4. tölul. hér að framan, yrði úthlutað aflahlutdeildum, árlegu aflamarki yrði úthlutað í þorski, ýsu, ufsa og steinbít en veiðar á öðrum tegundum yrðu frjálsar. Þetta aflamark mætti aðeins nýta til línu- og færaveiða, krókaaflamark, og yrði ekki frekar en krókaaflahlutdeildin flutt til báts sem hefði aðra gerð veiðileyfis.

Í frv. þessu er lagt til að gildistöku ofangreindra ákvæða verði frestað um eitt ár og því verði skipan á fiskveiðiárinu 2000/2001 sú hin sama og á fiskveiðiárinu 1999/2000.

Ástæðan er að þessu til viðbótar var reynt, við lagabreytingarnar í janúar 1999, að gefa krókaaflamarksbátum möguleika á að stækka og verða stærri en þau 6 tonn sem áður hafði verið miðað við varðandi krókabáta. Þegar farið var að skoða lagaákvæðin í undirbúningi þess að nýtt fyrirkomulag tæki gildi kom í ljós að möguleikarnir til stækkunar krókabáta höfðu víðtækari afleiðingar í för með sér en ráðgert var í fyrstu. Ég tel því eðlilegt að við þessar aðstæður stígum við eitt skref til baka þar sem greinilega tókst ekki að ná því markmiði sem stefnt var að við lagasetninguna í janúar 1999 og að við bindum aftur stærð krókabátanna við 6 tonn, en að þessi lagagrein verði eins og aðrar til skoðunar í starfi svokallaðrar endurskoðunarnefndar á næstu mánuðum. Nefndinni verði falið að vega og meta hvernig taka eigi næsta skref og ná þeim markmiðum sem ekki tókst að ná með lagasetningunni í janúar 1999. Ég mun fara nánar út hvernig þessu er háttað þegar ég fer yfir einstakar lagagreinar frv.

Svo ég fjalli örlítið um 1. gr. frv. þá er í 1. og 2. tölul. greinarinnar frestað um eitt ár að taka upp framseljanlega sóknardaga og jafnframt kveðið á um að fyrirkomulag það sem skýrt er í 3. tölul. hér að framan gildi fyrir fiskveiðiárið 2000/2001.

Samkvæmt 5. mgr. 6. gr. er heimilt að flytja sóknardaga á milli báta og þar segir að sóknardagar skerðist með ákveðnum hætti séu þeir fluttir til stærri báts og að þeim fjölgi séu þeir fluttir til minni báts. Þá segir í 5. málsl. 5. mgr. að miða skuli við stærð báta 1. janúar 1999. Hér er lagt til að þessi viðmiðun verði felld brott enda er hún óþörf og getur jafnvel leitt til mjög óeðlilegrar niðurstöðu hafi stærð báts breyst eftir 1. janúar 1999. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að um endurnýjun krókabáta og breytingar á þeim gilda ákveðnar reglur varðandi úreldingu og því er eðlilegast við flutning sóknardaga á milli þeirra að miða við raunverulega stærð báta eins og hún verður þegar reglur um flutning sóknardaga koma til framkvæmda 1. september 2001. Enn fremur er ljóst að í upphafi fiskveiðiársins 2001 fá allir bátar sama sóknardagafjölda.

Breytingar samkvæmt 2. gr. lúta eingöngu að því að fresta því um eitt fiskveiðiár að veita veiðileyfi með krókaaflamarki og lengja um eitt fiskveiðiár gildistíma þeirra fiskveiðistjórnarkerfa sem skýrð eru í 1., 2. og 4. tölul. hér að framan. Varðandi flutning þorskaflahámarks milli ára er þó rétt að láta fram koma að miðað er við að heimilt sé hverjum báti að flytja allt að 20% af þorskaflahámarki sínu frá fiskveiðiárinu 2000/2001 til fiskveiðiársins 2001/2002 sem við það breyttist í krókaaflamark í þorski.

Í 3. gr. er lagt til að ekki sé heimilt að veita bátum 6 brúttótonn eða stærri leyfi til að stunda veiðar með krókaaflamarki eða stækka krókaaflamarksbáta þannig að þeir verði stærri en 6 brúttótonn.

Samkvæmt þeim breytingum sem urðu á ákvæðum um skipan veiða smábáta í upphafi árs 1999 eru engar takmarkanir á stærð þeirra báta sem kost eiga á leyfi til veiða með krókaaflamarki. Krókaleyfi hafa hins vegar frá 1991 verið bundin við báta undir 6 brúttótonnum og skv. 6. gr. laga um stjórn fiskveiða eru leyfi með framseljanlegum sóknardögum bundin við báta undir 6 brúttótonnum. Í þessu sambandi skal þess getið að nokkrir bátar sem eru stærri en 6 brúttótonn en undir 6 brúttólestum eiga rétt á krókaleyfi, enda hafa þeir verið í flokki smábáta fyrir 1991.

[15:45]

Með því að afnema stærðartakmarkanir á veiðileyfi með krókaaflamarki kæmi sú staða upp að öll skip sem að öðru leyti uppfylltu ákvæði 5. gr. laga um stjórn fiskveiða gætu fengið krókaaflamarksleyfi. Þótt ekki sé heimilt að flytja krókaaflahlutdeild eða krókaaflamark til báta sem eru stærri en 6 brúttótonn eða 6 brúttólestir samkvæmt ákvæðum 6. mgr. 11. gr. og 8. mgr. 12. gr. er heimilt að flytja almennt aflamark og aflahlutdeild til krókaaflamarksbáta, en 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV verður ekki túlkuð með öðrum hætti því þar eru aðeins takmarkanir settar á það að flytja krókaaflahlutdeild og krókaaflamark til báta með aðra gerð veiðileyfis. Við flutning almenns aflamarks og aflahlutdeildar til báts með krókaaflamarksleyfi verður í raun sú breyting að hið almenna aflamark eða aflahlutdeild breytist í krókaaflamark og krókaaflahlutdeild.

Af framangreindu leiðir að bátar, án tillits til stærðar, gætu fengið leyfi til veiða með krókaaflamarki. Þeir gætu að vísu ekki fengið krókaaflahlutdeild eða krókaaflamark flutt til sín væru þeir stærri en 6 brúttótonn eða 6 brúttólestir en þeir væru frjálsir að veiðum á þeim tegundum sem ekki er úthlutað krókaaflamarki í. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXIV við lög um stjórn fiskveiða er aðeins úthlutað krókaaflamarki í þorski, ýsu, ufsa og steinbít, en veiðar á öðrum tegundum eru krókaaflamarksbátum frjálsar, sbr. 7. mgr. þess ákvæðis. Gætu því stór línuveiðiskip t.d. stundað óheftar veiðar á grálúðu og karfa en flutt til sín almennt aflamark í þorski, ufsa, ýsu og steinbít eftir þörfum, ef ákvæði þessu yrði ekki breytt. Í seinni málslið þessarar greinar er kveðið á um að bannað sé að stækka krókaaflamarksbáta þannig að þeir verið stærri en 6 brúttótonn. Þykja sömu rök liggja til þess.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til hv. sjútvn.