Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 16:03:53 (5467)

2000-03-20 16:03:53# 125. lþ. 82.10 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, EKG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[16:03]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Eins og aðrir þeir sem hér hafa talað fagna ég því að þetta frv. er komið fram og tel reyndar að mikil þörf hafi verið á því að fresta gildistökuákvæði þessarar smábátalöggjafar. Eins og við munum var hún sett í skugga hæstaréttardóms sem gerði það að verkum að hugtakið veiðileyfi var fellt niður. Menn töldu sig þurfa að bregðast við því með því að skilgreina annan rétt sem menn hefðu og sá veiðiréttur væri þá skilgreindur í gegnum kvótann. Það var niðurstaða Alþingis á þeim tíma að ekki væri hægt að verja veiðirétt smábátanna nema gera það á þann hátt sem niðurstaða varð um. Ég vil aðeins í þessu sambandi vekja athygli á því og minna á það að á þeim tíma var gagnrýni, sem höfð var uppi, fyrst og fremst sú að menn væru að bregðast of lítið við dómnum en ekki það að menn hefðu farið offari í viðbrögðunum. Ég held hins vegar að sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir núna sé þess eðlis að fullt tilefni sé til að fresta þessari gildistöku og reyna að verja það kerfi sem við höfum búið við og við höfum kallað í meginatriðum þorskaflahámarkskerfið og að hluta til dagakerfið sem hefur í öllum aðalatriðum reynst mjög vel fyrir þennan flokk báta. Nú háttar svo til eins og við vitum að heildstæð endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða stendur yfir þar sem allt fer undir, bæði stóra kvótakerfið, grundvöllurinn sjálfur og líka smábátakerfið eins og það leggur sig. Að mínu mati hefði verið mjög óeðlilegt ef sú nefnd sem vinnur að endurskoðuninni hefði skilað af sér sínu verki núna á haustdögum eins og gert er ráð fyrir og á sama tíma hefði verið að ganga í gildi breyting fyrir nokkurn hluta flotans, sem hefði e.t.v getað gengið í allt aðra átt en menn voru að leggja upp með í þessari endurskoðunarnefnd. Að mínu mati er miklu eðlilegra að við vinnum þannig að málinu að allt sé undir í þessum efnum og endurskoðunarnefndin hafi frjálsar hendur til að móta heildstæðar reglur. Þess vegna fagna ég mjög því frv. sem hér liggur fyrir og tel að það verði til bóta fyrir bæði endurskoðunarvinnuna og alveg sérstaklega þó fyrir þennan bátaflokk, þessa minni báta, sem hafa sannarlega verið að bæta hlut sinn á grundvelli gildandi laga um báta undir sex tonnum. Við þurfum ekki annað en skoða þá reynslu sem er þegar fengin af þessu. Á haustdögum fékk ég svar hæstv. sjútvrh. við fsp. um þróun aflamarks annars vegar og þróun þorskaflahámarksins hins vegar. Þar kemur mjög vel fram að mörg þau byggðarlög, sem hafa verið að tapa kvótum, hafa orðið undir í stóra kvótakerfinu, hafa að nokkru leyti getað bætt sér upp skaðann með því að byggja upp veiðirétt í smábátakerfinu. Auðvitað er skemmst að minnast Vestfjarða í því sambandi þar sem víða hefur orðið ævintýraleg uppbygging í þessu kerfi, sem betur fer, og hefur komið byggðunum til bjargar þar sem illa hefur farið. Til að mynda í heimabyggð minni er veiðirétturinn í þorskaflahámarkinu kominn vel yfir tvö þús. tonn af þorski en hefur hrunið niður í stóra kvótakerfinu. Það er mjög skemmtileg tilfinning og eiginlega ólýsanleg að vera á bryggjunum þegar bátarnir koma að landi, fullir af fiski, í þessum minni höfnum og sjá þessa duglegu ungu menn sem hafa verið að hasla sér völl í þessu kerfi, hafa komist inn í kerfið í gegnum þessa lagasetningu og fylgjast með hvernig þeir bjarga sér. Það er ekkert ofmælt sem kom fram í ræðu formanns Eldingar, smábátafélagsins á Vestfjörðum, þegar hann lýsti tilfinningu okkar sem búum í þessum byggðum að upplifa þessa reynslu. Ég er ekkert að segja að þeir sem stóðu að þessari lagasetningu hafi alveg séð fyrir hinar jákvæðu afleiðingar þorskaflahámarksins. Annars vegar hafa menn ákveðinn grundvöll til að byggja á sem er úthlutunin í þorskinum og hins vegar þá veiðiréttinn og frelsið og möguleikann til að bæta sig með því að sækja í aðrar tegundir. Það er þetta sem hefur verið að skapa þessum byggðum, þessum útgerðum, þessum einstaklingum og fjölskyldum, í öllum tilvikum er hér um að ræða bæði einstaklingsútgerðir og fjölskylduútgerðir, hefur verið að skapa þeim nýja möguleika og miklar tekjur sem hafa tryggt betur stöðu byggðanna.

Þess vegna, virðulegi forseti, held ég að það sé skynsamlegt sem hæstv. sjútvrh. er hér að leggja til. Menn hafa aðeins velt fyrir sér hugmyndunum um stækkun þessara báta. Ég vil segja það fyrir mína parta að ég get vel hugsað mér að menn séu ekki bara bundnir við sex tonna báta. Ég held hins vegar ef menn ætla að reyna að verja þetta kerfi í grunninn álíka og það er í dag, að erfitt sé að hugsa sér það að sú stækkun geti orðið mjög mikil. Margir hafa nefnt eitthvað í kringum tíu tonnin því ef menn fara miklu hærra er hætt við að grundvöllur núverandi kerfis, þorskaflahámarkskerfið gæti brostið. Ég get vel hugsað mér að einhver stækkun yrði heimiluð á þessum bátum, t.d. upp í tíu tonn eða þar um bil, sem gætu þá aukið öryggi þeirra sjómanna sem eru að sækja á þessum litlu bátum, oft við erfiðar aðstæður. Auðvitað getur verið að það kalli aftur á móti á eitthvað annað, einhverjar aðrar ráðstafanir sem menn verða að bregðast við en það verða menn þá að hugsa eitthvað frekar.

Virðulegi forseti. Ég held að ekki þurfi að hafa mörg orð um þetta mál. Ósk um frestun á þessari lagasetningu hefur verið mjög til umræðu upp á síðkastið, þetta hefur komið fram sem ósk m.a. frá Landssambandi smábátaeigenda, þetta hefur líka komið fram sem ósk frá fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem eru háðust þessum veiðum og ég tala ekki um þeirra einstaklinga sem hafa verið að veiða í þessu kerfi. Þess vegna er frv. mjög í þeim anda sem þar hefur verið talað um. Ég tel að með því sé líka verið að leggja grunninn að því að hægt sé að endurskoða þá fiskveiðilöggjöf heildstætt sem við búum við í dag.