Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 16:10:36 (5468)

2000-03-20 16:10:36# 125. lþ. 82.10 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[16:10]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Eins og allflestir þingmenn, sem talað hafa, vil ég lýsa yfir stuðningi við þetta frv. Ég tel að það sé góðra gjalda vert svo langt sem það nær. Ég vil þó taka sérstaklega undir orð hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar þeir bentu á það að í þinginu til umfjöllunar seinna í dag frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, þar sem flm. eru hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson og Árni Steinar Jóhannsson. Sá lagatexti sem þar er lagður til gengur lengra að mínu mati og er betri. Það er ástæða til að beina þeim tilmælum til hv. sjútvn. að hún taki bæði þessi frv. og stilli þeim saman og sjái hvort við getum ekki náð út úr því heildstæðari breytingum en hér er lagt til. Ég vil árétta á sama hátt og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, 1. þm. Vestf., að ég tel að sú umfjöllun sem fer núna fram um sjávarútvegsmál, sé bráðnauðsynleg á grunni nýrra hugmynda um stjórn fiskveiða. Varðandi endurskoðunarnefndina um stjórn fiskveiða er algjört lykilatriði að mínu mati að einmitt núna komi fram hugmyndir um breytingar og sýn manna á það hvernig við viljum sjá stjórn fiskveiða í framtíðinni.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna, virðulegi forseti. Ég mun styðja þetta lagafrv. og tel að það sé gott innlegg, svo langt sem það nær, þó svo að við hefðum viljað sjá frekari og meiri breytingar í anda þess frv. sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson mun tala fyrir á eftir.