Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 16:12:52 (5469)

2000-03-20 16:12:52# 125. lþ. 82.10 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, KHG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[16:12]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Meginefni þessa frv. er að fresta um ár gildistöku á tilteknum ákvæðum gildandi laga um stjórn fiskveiða sem fela í sér breytingu á veiðum smábáta á þá lund að þær verða kvótasettar í öðrum tegundum en þorski eins og nú er, þ.e. ýsu, ufsa og steinbít. Meginbreytingin, sem leitast er við að ná fram með þessu stjfrv., er að fresta gildistökunni um eitt ár. Eins og kom skýrt fram í máli hæstv. ráðherra liggja rökin nokkuð ljós fyrir.

Ég tel mjög skynsamlegt að fara þessa leið, að bíða með að láta hið nýja krókaaflamark taka gildi þar til að menn hafa endurskoðað lögin í heild sinni og komið sér saman um hvernig menn ætla að hafa lagaumhverfið til frambúðar. Mér finnst athyglisvert í þessu að upphaflega þegar það mál kom fram að gera breytingar á lögunum í framhaldi af dómnum í desember 1998 sögðu lögfræðingar okkur að menn yrðu að gera breytingar tiltölulega fljótt til að mæta niðurstöðu Hæstaréttar. Þeir lögðu til að breytingar yrðu gerðar eigi seinna en um sex mánuðum eftir að dómur féll eða menn frestuðu því ekki lengur en til upphafs næsta fiskveiðiárs eftir að dómur féll. Þannig var frv. þáv. sjútvrh. lagt fram. Við umfjöllun í sjútvn. var niðurstaðan að lengja aðlögunartímann frá því kerfi sem menn höfðu og til þess sem er ætlað að taka upp, um eitt ár, þannig að aðlögunartíminn var lengdur upp í eitt og hálft ár. Lögfræðingar töldu þá það á ystu nöf að löggjafinn brygðist ekki við fyrr.

[16:15]

Nú er greinilegt að þessar áhyggjur lögfræðinga hafa breyst og því talið óhætt að hafa aðlögunartímann enn lengri eða tvö og hálft ár. Mér finnst nauðsynlegt að vekja athygli á þessu vegna þess að viðbrögð þingsins mótuðust í upphafi mjög af áliti lögfræðinga, þ.e viðbrögð Alþingis við dóminum. Ég tel rökin sem borin eru fram núna vera í fullu lagi af því að menn hafa í lögum ákveðið að endurskoða þessa löggjöf í heild sinni. Því tel ég það fyllilega eðlilegt og uppfylla lagaleg skilyrði þótt aðlögunartíminn teygist eins og raun ber vitni.

Mér fannst, herra forseti, nauðsynlegt að halda þessu ákvæði til haga. Það réð miklu um viðbrögðin á sínum tíma en menn hafa eftir að hafa skoðað málið í betra næði komist að þeirri niðurstöðu að hin skjótu viðbrögð sem kallað var eftir hafi ekki endilega verið nauðsynleg.

Ég vil víkja að einu atriði, þ.e. mér finnst rétt og skylt að halda til haga breytingum sem Alþingi ákvað að gera í fyrra. Þá kom fram í áliti meiri hluta sjútvn. og hér í máli hæstv. sjútvrh. að opna þyrfti fyrir möguleika smábátamanna til að stækka báta sína. Það kom mjög skýrt fram þegar gerð var grein fyrir þessari brtt. á síðasta ári að ástæða þess að menn lögðu þetta til voru öryggissjónarmið. Menn vita að þeir sem róa á þessum litlu bátum eru ekki jafndreifðir um landið. Útgerð víða á verðurhörðum svæðum er á þá lund að stór hluti hennar fer fram með litlum bátum. Þar er auðvitað helst að nefna Vestfirði. Drjúgur hluti útgerðarinnar þaðan er stundaður af litlum bátum, minni en 6 brúttótonn. Niðurstaða meiri hluta sjútvn. var þá að leggja til af öryggisástæðum að mönnum yrði gert kleift að stækka þessa báta sína.

Það lá alveg fyrir að það yrðu ekki róttækar breytingar í útgerðarmunstri á þessum stöðum á næstu árum. Menn sáu því fram á það að útgerð frá þessum stöðum yrði stunduð af litlum bátum í fyrirsjáanlegri framtíð. Það er ábyrgðarhluti að búa svo um hnútana að menn haldi þeirri útgerð fastri í litlum bátum sem ætlað sé að róa allt árið, sækja afla til að halda uppi atvinnu bæði fyrir sjómenn og landverkafólk. Það gerir það enginn að gamni sínu að búa til þannig lagaumhverfið fyrir þessi landsvæði að menn séu dæmdir til að róa litlum fleytum ár eftir ár. Menn hafa verið heppnir á undanförnum vetrum vegna þess að þeir hafa ekki verið mjög veðurharðir. Komi hins vegar erfiðari vetur eins og mörg dæmi eru um þá geta menn búist við hinu versta ætli menn að halda áfram að stunda útgerð með þessum hætti.

Ég vil halda þessu sjónarmiði til haga, að möguleikum manna til að þróa útgerðina frá því sem nú er verði ekki lokað. Það kom mjög skýrt fram í máli hæstv. sjútvrh., hann tók það sérstaklega fram að endurskoðunarnefndinni væri ætlað að skoða hvernig markmiðum sem menn settu sér á síðasta ári yrði best náð. Þau voru að öryggissjónarmiðin réðu því að opnað yrði fyrir möguleika til að stækka bátana. Þeir möguleikar voru ekki mjög rúmir. Í smábátakerfinu, á bátum minni en sex tonn áttu menn að fá möguleika á að stækka þá upp fyrir sex tonn. Menn gátu hins vegar ekki flutt aflahlutdeild frá þeim nema niður á báta sem voru minni en sex tonn og geta ekki flutt aflahlutdeild og aflamark til þeirra. Þetta átti að afmarkast við þá sóknarmöguleika sem viðkomandi bátur hafði þegar stækkunin fór fram, einmitt til að koma í veg fyrir að stórar glufur opnuðust að þessu leyti.

Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að skoða ábendinginu sjútvrn. í sjútvn. um hugsanlegan möguleika á að stórir bátar gætu skráð sig inn í hið nýja krókaflamarkskerfi. Ég er ekki að öllu leyti sammála því sem fram kemur í grg. um 3. gr., að heimilt sé að flytja aflamark og aflahlutdeild úr stóra kerfinu yfir í smábátakerfið. Það er rökstutt með því að menn séu að gagnálykta frá ákv. til brb. XXIV. Það segir ekkert um það í viðkomandi bráðabirgðaákvæði að það sé heimilt og ég tel mig reyndar geta lesið út úr lögunum allt annan skilning. En til þess að hafa á hreinu hvað menn voru að gera þá eru menn að setja upp tvö aðskilin kerfi, aflamarkskerfið og krókaaflamarkskerfið. Það er ekki gert ráð fyrir möguleikum á að blanda þeim saman, þannig að það sé alveg skýrt.

Hins vegar er frávik frá þessu í bráðabirgðaákvæði XXIII þar sem heimilað er að færa aflamark úr stóra kerfinu yfir á svonefnda þorskaflahámarksbáta. Það má gagnálykta út frá því ákvæði líkt og gert er með frv., þ.e. segja að úr því að það er sérstaklega tekið fram í þessu bráðabirgðaákvæði að heimilt sé að flytja yfir á krókabát á þorskaflahámarki aflamark á þorski, þá sé annar flutningur óheimill. Ég tel þannig að túlkunin sem fram kemur í greinargerð með 3. gr. sé ákaflega rúm, rýmri en ég get fallist á.

Það breytir því ekki að þegar menn telja glufur í kerfinu umfram það sem ætlað er þá er sjálfsagt og eðlilegt að líta yfir það í nefndarstarfi og búa svo um hnútana að þau markmið sem menn settu sér í upphafi náist.