Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 16:31:51 (5473)

2000-03-20 16:31:51# 125. lþ. 82.10 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[16:31]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er svolítið merkilegt að upplifa þessa umræðu, einkum af hálfu stjórnarliða, þ.e. hvernig því er stillt upp að hér þurfi að fara að fresta framkvæmd tiltekinna laga eða ákvæða í lögum. Það kemur svolítið á óvart, herra forseti, vegna þess að það var skrifað í textann strax í janúar 1999 að endurskoða ætti lögin. Það er ekkert nýtt sem var að koma upp núna, menn vissu það þá þegar, en settu eigi að síður þau ákvæði inn sem menn hafa reitt sig á og gert áætlanir sínar samkvæmt þeim. Og ekki bara það heldur breyttu menn lögunum líka í vor sem leið, einmitt ákvæðum sem lutu að smábátunum. Ég er því ekki viss um að ég kaupi alveg þau rök að nú þurfi að fresta ákveðnum hlutum af því að verið sé að endurskoða lögin. Menn áttuðu sig kannski ekki á því þegar þessi lög voru sett að þetta væri svona óraunsætt eða yrði e.t.v. ekki framkvæmanlegt af því að það ætti að fara að endurskoða lögin og þurfa þess vegna að grípa til frestunar núna.

Mér finnst þetta hins vegar bera vott um óvandaða lagasetningu. Mér finnst þetta bera vott um það hvað menn bera litla virðingu fyrir þeim hópi manna sem stundar smábátaveiðar. Þessi hópur hefur mátt sæta því að hrært er í löggjöfinni og starfsumhverfinu a.m.k. einu sinni á ári, stundum oftar, og menn vita satt að segja sjaldnast hvaðan á þá stendur veðrið. (Gripið fram í.)

Það er þess vegna ekki óeðlilegt að menn spyrji núna: Hvað um okkur, hvað gerist? Einhverjir eru búnir að gera skuldbindingar, hafa haldið að lögin sem sett voru mundu a.m.k. gilda þar til endurskoðun væri lokið, þ.e. að farið yrði eftir löggjöfinni. Það má vel vera, eins og hér er skotið inn, að einhverjir hafi beðið um breytingar en mér finnst það ekki vera nein afsökun fyrir meiri hlutann á Alþingi þó að hann hlaupi eftir slíku og þurfi síðan að koma til baka og breyta enn á ný. Mér finnst þetta einfaldlega bera vott um óvandaða lagasetningu, um að mál hafi ekki verið hugsuð í gegn.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fjallaði reyndar svolítið um það áðan hversu mikill asi hefði verið á mönnum í janúar 1999 þegar verið var að bregðast við dómi Hæstaréttar frá í desember árinu áður, og að lögfræðingar hefðu haft ýmsar áhyggjur sem menn hefðu tekið mark á á þeim tíma. Það er alveg rétt, menn höfðu vissulega miklar áhyggjur. Það er kannski allt í lagi að rifja upp að það voru tvö frv. sem lögð voru fram upphaflega og aldrei varð nema annað þeirra að lögum, einfaldlega vegna þess að menn voru að fálma dálítið og voru ekki vissir um hvernig ætti að bregðast við, voru þó greinilega með þau pólitísku fyrirmæli að viðbrögð ættu að vera í algjöru lágmarki.

Skilaboðin sem komu út úr viðbrögðunum voru líka dálítið sérkennileg eins og menn muna. Annars vegar að allir ættu að geta fengið veiðileyfi og þar með var afnumin í rauninni sú endurnýjunarregla sem var í löggjöfinni, í 5. gr., býsna hörð um hvað menn þyrftu að uppfylla til að geta endurnýjað og stækkað skip sín, en hins vegar var hert á hvað varðaði smábátana og menn þurftu að úrelda þrefalt ef þar átti að stækka bát. Þannig var það, herra forseti, að skilaboðin voru dálítið misvísandi og þeir voru býsna margir hér í þinginu sem þóttust nokkuð vissir um það á þeim tíma að hér væri ekki verið að stíga a.m.k. öll skref rétt.

Eitthvað var það nefnt hér áðan að menn hefðu kvartað undan því að þetta væru ekki næg viðbrögð við dómi. Ég mundi frekar orða það svo að menn hefðu talið að ekki væri um rétt viðbrögð við dómi að ræða, að býsna margir hér hafi litið svo á að dómur Hæstaréttar, þó að einungis væri verið að dæma um 5. gr., gæfi vísbendingar sem segðu okkur ýmislegt fleira sem rétt hefði verið fyrir þingið að taka á á þeim tíma og gefa sér örlítinn tíma í það. Það varð ekki, herra forseti. Þess vegna erum við stödd í því umhverfi sem við erum núna, bíðum enn dóms Hæstaréttar vegna niðurstöðu Vatneyrardómsins og auðvitað er það svo að allt þetta umhverfi er mjög ótryggt, allt starfsumhverfi greinarinnar er í svolitlu uppnámi.

Ég ætlaði ekki að halda langa ræðu, ég vildi bara koma þessu að. Mér finnst að menn eigi að draga lærdóma af þeirri reynslu sem hér er fengin af endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Menn eru að hlaupa hér til mjög reglulega til að breyta löggjöfinni og e.t.v. of oft. Það væri betra að gefa sér tíma, íhuga málin betur, fara vandlegar yfir þegar lögunum er breytt en reikna síðan með því að þau fái a.m.k. að reyna sig, að menn fái að starfa eftir þeim en þurfi ekki að sæta því að hér sé komið inn með frv. til breytinga svo ört sem raun ber vitni.