Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 16:47:14 (5477)

2000-03-20 16:47:14# 125. lþ. 82.10 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[16:47]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því í seinni ræðu hæstv. sjútvrh. að hann fjallaði um að það hefði verið mjög erfitt við samningu þessa frv. að sigla á milli skers og báru hvað þetta varðar og eftir að frv. hafi verið lagt fram hafi upplýsingar borist ráðuneytinu um það að menn hafi tekið lögin góð og gild og farið að stækka við sig bátum.

Hæstv. ráðherra sagði líka að það yrði vegið og metið í hv. sjútvn. að taka tillit til þessa en það yrði erfitt. Ég vil bara leyfa mér að vitna aftur í það sem kom hér fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni með öryggissjónarmiðið. En ég get ekki ímyndað mér að það sé erfitt að taka tillit til þessa. Og er það virkilega þannig í þessum lögum þar sem of mikið hefur verið hrært í smábátakerfinu, eins og hæstv. ráðherra sagði, að menn geti ekki notið stöðugleikans? Menn geta með öðrum orðum ekki treyst því sem samþykkt var á hv. Alþingi fyrir rúmlega einu ári síðan. Menn fara að aðlaga sig að því kerfi. Síðan kemur hæstv. sjútvrh. með frv. til þingsins um breytingar, um frestun á tilteknum þáttum. Og þá eiga menn ekki að njóta stöðugleikans heldur kemur löggjafinn og rekur rýting, ef svo má að orði komast, í bakið á þeim sem tóku lögin gild. Og svo verður bara sagt: ,,Þetta var bara allt í plati. Það var vitlaust gefið og við getum ekkert farið eftir þessu. Þið verðið bara að eiga það við ykkur þó að þið hafið treyst á þessi lög og farið út í einhverjar fjárfestingar til stækkunar báta og annað slíkt.``

Er það virkilega þannig í þessum hrærigraut, ef svo má að orði komast, þessum breytingum sem verið er að gera að menn geti ekki treyst því sem hér er samþykkt?