Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 16:51:18 (5479)

2000-03-20 16:51:18# 125. lþ. 82.10 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[16:51]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Aðeins um það mál sem ég hef nú verið að ræða hér og kom fram í fyrri hluta andsvars hæstv. sjútvrh. þá vil ég bara fagna því og taka undir það sem hæstv. ráðherra hefur sagt um þennan þátt sem ég gerði að umtalsefni. Ég ætla ekki að fara út í frekari umræðu um fiskveiðistjórnarkerfið við hann, ekki hér og nú. En ég fagna því sem hér hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra og vil trúa því og treysta að hv. sjútvn. taki þessi atriði til skoðunar vegna þess að það er það langt síðan þessar breytingar voru gerðar og við vitum, eins og hér hefur komið fram, að fjöldi aðila í þessu landi tók sig til eftir þessar breytingar og ætlaði að stækka sína báta. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Síðan verða hv. þm. og hæstv. ríkisstjórn að eiga það við sig hvort þeir hafi gengið of langt í þessu í janúar 1999. Um það ætla ég ekkert að fjalla. Ég var ekki hér þegar það var gert. En mér finnst grundvallaratriði að það verði ekki komið það harkalega í bakið á þeim sem tóku þetta bókstaflega, hófu framkvæmdir, keyptu báta og tæki og tól til að byggja upp þessa báta, að erfitt verði að lagfæra það heldur verði tekið tillit til þeirra. Og ég treysti öðrum mönnum í þessu kerfi og hv. sjútvn. náttúrlega miklu betur til að vega það og meta en mér í þessum efnum.

En mér finnst það einhvern veginn mjög lúalegt og það geti bara ekki gengið að fjárfestingar manna á þessu sviði séu bara gerðar einskis nýtar eða ógiltar í einu vetfangi.