Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 17:45:13 (5484)

2000-03-20 17:45:13# 125. lþ. 82.11 fundur 429. mál: #A stjórn fiskveiða# (sólarlagsákvæði, sóknardagar, veiðar smábáta o.fl.) frv., Flm. GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[17:45]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál. Það er einfaldlega þannig að Vatneyrardómurinn er ekki fallinn í Hæstarétti þó ég telji reyndar líklegt miðað við málatilbúnað og ekki síst eftir að hafa hlustað á hluta af málflutningnum fyrir Hæstarétti og síðan lesið um hann í blöðum að dómurinn verði staðfestur. Það er einfaldlega þannig að ég tel að alþingismenn og ríkisstjórn verði að halda áfram að hugleiða þessi mál og koma með tillögur. Við höfum hins vegar orðið vör við að ríkisstjórnin hefur sagt sem svo: Við skulum bara bíða eftir dómnum og svo bregðumst við við. Mér hefur ekki fundist það viturlegt. Mér hefur heyrst á hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að honum finnist það heldur ekki viturlegt. Þess vegna göngum við út frá því í vinnu okkar þegar við leggjum fram frv. og þáltill. að menn séu að leggja til hægfara breytingar á lögunum, sem við ætlumst til að taki ekki meira en rúmt ár, eða hálft annað ár héðan í frá. Í því máli sem við ræðum vonandi næst á dagskránni segjum við m.a. í greinargerð:

,,Verði Vatneyrardómur hins vegar staðfestur af Hæstarétti óbreyttur er sú aðferð útilokuð sem lýst er í 6. lið hér að framan.`` Það er einfaldlega niðurstaða málsins að verði Vatneyrardómurinn staðfestur höfum við ekki tíma til að sitja yfir því að útfæra lagfæringar eins og hér er lagt til heldur sýnist mér að við verðum að grípa til þess að fara yfir í það að stýra sókn og stýra eftir landhelgislögunum.