Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 17:49:25 (5486)

2000-03-20 17:49:25# 125. lþ. 82.11 fundur 429. mál: #A stjórn fiskveiða# (sólarlagsákvæði, sóknardagar, veiðar smábáta o.fl.) frv., Flm. GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[17:49]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Undir síðustu orð hv. þm. Jóhanns Ársælssonar get ég alveg tekið. Ég held einmitt að það sem við höfum verið að reyna að gera með því að vinna upp tillögur um það hvernig stefnan gæti litið út í framtíðinni hafi markast af því að við vildum horfa til framtíðar með breyttum aðferðum.

Ég veit ekki hvort á að kalla þetta afréttara en út af fyrir sig má alveg kalla það það. Ég vil kalla þetta afréttara á réttlæti, að verið sé að rétta af það óréttlæti sem mönnum hefur verið boðið upp á með því að vera leiguliðar stórútgerðanna að aflaheimildum í fjöldamörg ár. Það er ekki verra en hvað annað að nota þetta orð um það að við séum að rétta af það óréttlæti sem viðgengist hefur. Þess vegna get ég alveg tekið undir með hv. þm. að það megi kalla þetta afréttara. Þetta eru tímabundnar aðgerðir sem við göngum út frá að fái að gilda í eitt ár á meðan verið er að endurskoða lögin. Ef Vatneyrardómurinn verður staðfestur höfum við ekki tíma til að fara þessa leið. Það liggur alveg fyrir.

Aðeins út af því að hv. þm. vék að könnun LÍÚ, þá hafði ég ekki áttað mig á því fyrr en í dag, raunar eftir að ég var búinn að vera í viðtali uppi í útvarpi, að sú viðmiðun sem þeir ganga út frá byggist á því að 69,5% hafi skipt um hendur vegna eignabreytinga, þ.e. vegna sölu á aflaheimildum og eignarhlutum í fyrirtækjum. Ekki er endilega verið að tala um að selja aflahlutdeild, heldur eignarhlut í fyrirtækjum. Þannig er verðmætið fundið út. Þegar selt er skip eða hlutabréf er verið að selja hluta af eignarhluta og hluta af aflaheimildum. Ég ætla því að leyfa mér að geyma mér að leggja mikið út af þessari skýrslu LÍÚ.