Grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 18:18:31 (5490)

2000-03-20 18:18:31# 125. lþ. 82.12 fundur 338. mál: #A grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[18:18]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég veiti því athygli að hér er um að ræða sameiginlega till. til þál. tveggja þingflokka á Alþingi. Í máli hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar kom fram áðan að hann vildi takmarka möguleika aðila til þess að selja veiðiréttinn og þá ekki hvað síst með tilliti til hinna smærri byggða sem hafa kannski fyrst og fremst forsendur til áframhaldandi vaxtar eða tilveru ef þær hafa veiðiréttinn. Af því að fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa í umræðu um sjávarútvegsmál gjarnan komið því að að þar á bæ væri heldur andstaða við það að fjármunum væri mikið blandað í þessa umræðu eða að menn væru alltaf að tala um peningamálin, þá vil ég spyrja hv. þm. hvort hann sé þá á þeirri skoðun að það eigi jafnvel að banna mönnum að versla með skip, vegna þess að ef mönnum er bannað að versla með veiðiheimildir þá er hin leiðin eftir sem við þekkjum bæði frá því í gamla daga, þ.e. að menn seldu einfaldlega skipin eða útgerðirnar og þar með var lífsbjörgin aftur tekin frá stöðunum.