Grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 18:22:10 (5492)

2000-03-20 18:22:10# 125. lþ. 82.12 fundur 338. mál: #A grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[18:22]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég get verið sammála hv. þm. um að það er óeðlilegt að það gerist sem skýrsla LÍÚ segir okkur að hafi gerst, þ.e. að ákveðnum aðilum sé úthlutaður aðgangur að auðlindinni og síðan sé þeirra að ákvarða hverjir megi sækja og að það þurfi að sækja veiðiréttinn undir þá. Og af því ég heyri að ég og hv. þm. erum sammála um að það þurfi að ríkja jafnræði í þessum efnum hvað varðar aðgang að aflaheimildum, vænti ég góðs stuðnings hv. þm. þegar kemur að umfjöllun um tillögur Samfylkingarinnar sem byggja á því að menn þurfi ekki að sækja veiðiréttinn undir annan en þann sem er eigandi auðlindarinnar, þ.e. þjóðina eða opinbera aðila fyrir hennar hönd, og að þar ríki jafnræði. Þannig og einungis þannig getum við komist nálægt því ástandi sem ríkti áður en farið var að skammta veiðiréttinn eftir þeim reglum sem við þekkjum núna, þ.e. að viðurkennt verði að um takmarkaðan rétt sé að ræða og því sé eðlilegt að menn greiði fyrir þennan rétt, en það eigi þá við um alla en ekki bara suma eins og nú.