Grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 18:42:32 (5496)

2000-03-20 18:42:32# 125. lþ. 82.12 fundur 338. mál: #A grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[18:42]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Alþingi Íslendinga er einmitt kjörið til að stýra hlutunum. Ef allir hefðu jafnan sjálftökurétt og þar hlypi hver í kapp við annan og sá fengi sem hlypi hraðast þyrftum við að sjálfsögðu ekkert Alþingi. Auðvitað þurfum við stýringu á hlutunum og út frá pólitískri sýn sem við höfum. Við höfum þá sýn að það eigi að stunda vistvænar veiðar, það eigi að láta byggðirnar njóta forgangs, bundins forgangs til ákveðinna auðlinda, og því þarf að stýra. Við erum ekkert að kinoka okkur við því að það sé gert. Tillaga okkar gengur út frá því að vinna ákveðinn grundvöll, grunnvinnu til að beita einmitt stýringum á. Varðandi vangaveltur eins og þær hvernig megi binda veiðiheimildir við jörð, þetta hefur verið öldum saman og það er eðlilegt að ákveðinn veiðiréttur fylgi jörðum og sé ekkert fluttur þaðan. Ef jörðin fer í eyði færist hann í sjálfu sér ekkert yfir á næstu jörð. Þetta er í sjálfu sér útfærsluatriði.

Við leggjum áherslu á að auðlindir sjávarins eru sameign þjóðarinnar og eigi ekkert að lúta einhverjum uppbótareglum í sjálfu sér.