Grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 18:46:29 (5498)

2000-03-20 18:46:29# 125. lþ. 82.12 fundur 338. mál: #A grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[18:46]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Sem alþingismaður kinoka ég mér ekki við að axla þá ábyrgð að taka þátt í að stýra landinu, hvorki hvað varðar þau ákvæði sem lúta að nýtingu og meðferð fiskimiðanna né öðrum verkefnum sem Alþingi er falið að stýra.

Ég ítreka það að ef náttúruauðlindin sem slík er bara afhent þeim sem hlaupa hraðast í þessu kapphlaupi þá er það í sjálfu sér ekki stýring sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur áhuga á. Hún hefur áhuga á því að þessar auðlindir séu nýttar á hagkvæman og sjálfbæran hátt í þágu þjóðarinnar allrar og þar sé ekki kerfisbundin mismunun, hvorki hvað varðar byggðir, búsetu né annað því um líkt eins og við nú upplifum, þ.e. það mikla óöryggi sem núverandi fiskveiðistjórn einmitt hefur í för með sér gagnvart hinum dreifðu byggðum. Ég undirstrika þetta óöryggi. Varðandi það þá teljum við að Alþingi hafi á vissan hátt brugðist í stýringu sinni og við leggjum til að tekinn verði upp betri háttur og markvissari.