Grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 18:48:02 (5499)

2000-03-20 18:48:02# 125. lþ. 82.12 fundur 338. mál: #A grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar# þál., Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[18:48]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég ætla að reyna að svara í einhverju því sem kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Ég treysti mér náttúrlega ekki til að gera það í andsvari en skal reyna að vera stuttorður.

Í greinargerð Frjálslynda flokksins með þessari þáltill. kemur alveg skýrt fram að við teljum að stöðva eigi framsal og framleigu á veiðiheimildum, þ.e. hvernig svo sem menn útfæra kerfið við að nálgast aflaheimildirnar. Við höfum lýst því í okkar greinargerð að við teljum að það verði að nálgast þær með því að bjóða mönnum upp á jafnræði og við höfum kallað það að setja á einhvers konar stýrt uppboð eða stýrðar leiðir þar sem menn geti nálgast aflaheimildirnar og í okkar hugmyndum höfum við lagt til að það gerðist á fimm árum.

Við teljum hins vegar að ekki sé verjandi að þær heimildir geti svo farið í framleigu vegna þess að þá held ég að við værum í raun að bjóða upp á svipað fyrirkomulag og við höfum, þ.e. að menn gætu með einhverju lagi fundið glufur á kerfinu. Við skulum ekki gleyma því og við vitum það öll að við erum afar fundvís á leiðir í svona kerfum. Við finnum endalaust einhver göt og smugur. Við óttumst sem sagt að ef heimilt væri að framleigja þetta og framsal í þessu kerfi eftir að menn hefðu fengið til sín þær heimildir sem þeir hefðu leyfi til að nálgast og hefðu forgang til að nálgast með jafnræðisreglum, eins og við höfum verið að reyna að lýsa í þessum atriðalista sem er hér í 15 atriðum, þá værum við í raun að setja aftur í gang braskið og vesenið og allt saman til lítils unnið.

Það væri eðlilegt að hugsa svona kerfi þannig að meginmarkmið þeirra útgerða sem fengju til sín veiðiheimildir væri að veiða þessar heimildir, tekjurnar kæmu sem sagt af veiðunum, það væri meginmarkmið. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt fyrir okkur að hugsa þetta þannig að þeir sem eru í útgerð hyggist gera út á veiðiheimildirnar sínar og að með þeirri aðferð sem þeim verður boðin til að nálgast þær, t.d. í stýrðu útboði, séu þeir ekki að ná í meiri veiðiheimildir en þeir ætla sér að nota, sem þeir ætla sér að gera út á og stunda fiskveiðar á. Það fælust því ekki nýir leigumöguleikar í því að kalla fram viðskipti milli manna inni í kerfinu. Ég held að menn ættu ekki að byrja á því. Ef það tækist að búa til texta sem menn gætu sæst á að þessu leyti held ég að menn ættu ekki að byrja á því að halda áfram með braskið.

Við sjáum aldrei fyrir endann á því og það hefur best sýnt sig í því kerfi sem við erum með að við sjáum aldrei fyrir endann á því hvernig þetta þróast og hvaða afleiðingar fylgja þessum frjálsa framsalsrétti útgerðarmanna. Ég hef reynt að orða þetta þannig að útgerðarmenn, hverjir svo sem þeir eru, sem vilja stunda fiskveiðar eigi að fá veiðirétt og nýtingarrétt og það eigi að reyna að úthluta honum með sem mestu réttlæti milli manna. Hugmyndir okkar ganga út á að mönnum sé gefin ákveðin aðlögun að þessu kerfi og ég held að sú greinargerð sem hér fylgir með skýri nokkurn veginn hvað við erum að hugsa í því.

Ég hef hins vegar sagt áður í þessum ræðustól, síðast í liðinni viku, að ég væri sannfærður um enginn einn þingmaður, hvorki ég né aðrir, fái það eftirsóknaverða hlutverk að fá að mæla fram sinn eigin lagatexta. Þegar niðurstaða fæst sem vonandi verður, verður hún vonandi þannig að sem flestir geti sætt sig við hana. Það mun hins vegar enginn fá sinn óskatexta algjörlega uppfylltan. Ég held að við vitum það öll. Og ég held að við eigum ekki að ætla okkur þá dul að hvert og eitt okkar geti fengið þann texta í svona viðamikil lög sem hann eða hún persónulega óskar eftir eða heldur að sé réttastur. Sjónarmið annarra verða líka að komast að og það mun enginn skrifa sinn óska-lagatexta í þessum lögum.