Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 13:34:07 (5505)

2000-03-21 13:34:07# 125. lþ. 83.92 fundur 394#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[13:34]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um aðstöðu til að sækja framhaldsskólanám vítt og breitt um landið. Með þeim spurningum sem ég lagði fram var ætlunin að fá niðurstöðu eða greint frá því í hvaða sveitarfélögum eða svæðum sú aðstaða væri ekki fyrir hendi að ungt fólk gæti sótt framhaldsskólanám heiman að frá sér en yrði að fara lengra til þess að sækja framhaldsskólanám. Ég spurði í hvaða byggðarlögum háttaði þannig til að fólk 16--20 ára eigi þess ekki kost að sækja framhaldsskóla daglega heiman frá sér.

Í svari hæstv. menntmrh. eru þessi byggðarlög skilgreind sem kjördæmi og svarið þá þannig að í öllum kjördæmum megi finna þær aðstæður að ekki sé hægt að sækja framhaldsskólanám, nema þá helst í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. Fyrir mér er þetta ekki svar, herra forseti. Ég vildi fá þetta nánar greint niður. Þetta er stórmál, þ.e. hvernig fólki reynist unnt að sækja framhaldsskólanám eftir því hvar það býr og þá líka hvernig bæta megi úr.

Svarið er þannig, herra forseti, að mér finnst þetta ekki svara þeim spurningum sem ég setti fram. Kannski hafa þær verið óljósar en það hefði átt að láta þær njóta vafans. Ég fer fram á það, herra forseti, að gengið verði eftir nákvæmra og fyllra svari þannig að nýta megi upplýsingarnar eins og til er ætlast.