Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 14:22:50 (5513)

2000-03-21 14:22:50# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, Frsm. 2. minni hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Frsm. 2. minni hluta (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur alveg fyrir að þetta er stjórnartillaga og þetta er tillaga sem nýtur stuðnings stjórnarflokkanna, þingflokka hennar. Hins vegar er ekkert nýtt að upp komi mál sem flutt eru sem slík að í einstökum tilvikum hafi einstakir þingmenn skoðanir sem eru ekki endilega í samræmi við almenna niðurstöðu viðkomandi þingflokka.

Það kom fram strax í upphafi þegar hæstv. utanrrh. mælti fyrir þessu máli að ég setti fram þær efasemdir sem ég hef viðrað núna í nokkuð lengra máli. Út af fyrir sig þarf afstaða mín því ekki að koma á óvart í þessum efnum. Þetta mál var kynnt með hefðbundnum hætti innan þingflokks Sjálfstfl., fékk þar mjög ítarlega umræðu þar sem menn höfðu tækifæri til að setja fram sjónarmið sín. Ég tel hins vegar mjög óeðlilegt að ég fari að tala fyrir hönd annarra þingmanna, sem ég hef svo sem ekkert verið að fara í gegnum afstöðuna hjá, að ég fari að tala fyrir hönd þeirra einstakra þingmanna og skýra afstöðu þeirra. Það er eðlilegast að hver þingmaður geri það fyrir sig.