Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 14:26:15 (5516)

2000-03-21 14:26:15# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, SighB
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[14:26]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð og vil nota tækifærið til að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að samþykkja það að ég fái að taka til máls núna þó að ég mæli ekki fyrir sérstöku nál., en hann þarf að hverfa frá og getur ekki komið aftur fyrr en síðar í dag til að flytja framsöguræðu sína.

Ég sakna þess hins vegar mjög að hæstv. utanrrh. skuli ekki vera í salnum því að ég tel, ekki síst í ljósi þess sem hv. þm. sem hér var að ljúka máli sínu sagði áðan, að nauðsynlegt sé að fá úr því skorið, hæstv. forseti, hvernig þingflokkur Sjálfstfl. hefur greint hæstv. utanrrh. frá afstöðu sinni til málsins.

Ef það hefur verið gert með þeim hætti að utanrrh. hafi verið gert ljóst að innan þingflokks Sjálfstfl. væru andstöðu\-raddir við frv., en samt --- samt --- mundi forusta Sjálfstfl. tryggja frv. samþykkt á Alþingi er ekkert við því að segja. Hafi málið hins vegar verið kynnt þannig fyrir hæstv. utanrrh. að þingflokkur Sjálfstfl. hefði samþykkt að málið yrði lagt fram sem stjórnartillaga án þess að láta þess getið að andstaða væri uppi þá er málið miklu alvarlegra. Ég óttast að svo hafi verið satt að segja og ég hef sjálfur reynslu af því á árum áður að hafa upplifað slíkt.

En hæstv. utanrrh. er ekki hér svo ég get ekki spurt hann að því en það er nauðsynlegt að þetta upplýsist. Vænti ég að hægt sé að koma því til hans ...

(Forseti (GÁS): Forseti vill upplýsa vegna fyrirspurnar hv. þm. um fjarveru hæstv. utanrrh. þá hefur það legið fyrir að hann mun koma til umræðunnar síðar í dag. En það varð að samkomulagi að hæstv. dómsmrh. væri hér við fyrri part umræðunnar og er þá til andsvara ef sérstökum fyrirspurnum er beint að honum.)

Þá spyr ég hæstv. dómsmrh. og þetta er mjög einföld spurning sem hæstv. ráðherra getur svarað í andsvari: Var utanrrh. og ríkisstjórninni gerð grein fyrir því að andstaða væri við málið í þingflokki Sjálfstfl. þegar niðurstaða á afgreiðslu þingflokks Sjálfstfl. var tilkynnt og ákvörðun tekin um að flytja till. til þál. sem stjórnartillögu?

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi er hér um að ræða stærsta viðfangsefni á sviði alþjóðamála sem Alþingi hefur tekist á við síðan EES-samningurinn var gerður á sínum tíma. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það en þetta er efnisatriði málsins. Ætla menn að samþykkja að Ísland gerist aðili að Schengen eða ætla menn ekki að gera það? Um það snýst þetta mál og ekkert annað.

Það er ekki til afgreiðslu hér hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst standa að einstökum framkvæmdaratriðum. Hvernig menn hyggjast standa að því að fjármagna eða smíða viðbót við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli ellegar hvernig menn hyggjast standa að ráðningu starfsmanna, eða hvernig menn ætla að þjálfa tollverði eða löggæslumenn. Um það snýst ekki það mál sem liggur fyrir Alþingi.

Það mál sem fyrir Alþingi liggur er einfaldlega þetta: Ætla menn að segja já eða nei við þátttöku í Schengen-samstarfinu? Ætla menn að svara já eða nei við því erindi sem hefur verið sent til Alþingis, að Ísland segi já við samningi sem er mikilsverðasti samningur á vettvangi alþjóðamála síðan EES-samningurinn var gerður? Um það snýst málið og um það eru við beðin að taka afstöðu.

[14:30]

Ætlum við Íslendingar að taka þátt í pólitísku samstarfi við önnur Evrópuríki, ekki einu sinni eins og EES-samningurinn var gerður þar sem við höfum ekki aðstöðu til þess að hafa áhrif, heldur á jafnréttisgrundvelli, á sama grundvelli og ríkin innan Evrópusambandsins hafa, þ.e. hafa rétt til þess að hafa jafnmikil áhrif á undirbúning og afgreiðslu mála og þau? Um þetta snýst spurningin. Þetta er hið stóra pólitíska mál sem blasir við okkur og við erum beðin að taka afstöðu til. Ætlum við að varðveita vegabréfafrelsið innan Norðurlanda? Ætlum við að taka þátt í að greiða frjálsa för fólks um Evrópu sem jafnréttisaðili í samstarfi við aðra? Já eða nei. Þetta er kjarni málsins. Já eða nei við þeirri spurningu. Svar mitt er já. Ég ætla ekki að hlaupast frá því að segja já við þeirri pólitísku spurningu: Eigum við Íslendingar að taka þátt í friðar- og samvinnuferlinu í Evrópu á jafnréttisgrundvelli? Já.

Það er síðan í höndunum á ríkisstjórninni, einstökum ráðherrum, fjárveitingavaldinu og fleirum hvernig að framkvæmdinni á þessari samþykkt verður staðið, hvernig flugstöðin á Keflavíkurflugvelli verði undir það búin að framkvæma samninginn sem við erum að gangast undir, hvernig hafnir úti á landi verða búnar undir það, hvernig löggæslan verður búin undir það, hvernig tollverðir verða búnir undir það o.s.frv., hvernig uppfræðslan verður um það, um réttindi okkar og skyldur. Það er framkvæmdaratriði í höndunum á fjárveitingavaldinu, Alþingi að nokkru leyti þegar þar að kemur sem hluti fjárveitingavaldsins og ráðherrum. En það er ekki til umfjöllunar hér. Það er alfarið á ábyrgð framkvæmdarvaldsins, þ.e. hæstv. ríkisstjórnar og ráðherra, alþingismenn koma ekki að því við afgreiðslu þessa máls.

Herra forseti. Ég þarf ekki að segja miklu meira en það sem ég er búinn að gera. Málið snýst um það hvort við ætlum að vera með í hinu pólitíska og efnahagslega samrunaferli í Evrópu. Svarið er já.