Verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 14:40:36 (5523)

2000-03-21 14:40:36# 125. lþ. 83.14 fundur 420. mál: #A verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir# (menntunarkröfur, tryggingar, afleiðusamningar o.fl.) frv. 99/2000, viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[14:40]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, og lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, með síðari breytingum, sem er 420. mál þingsins á þskj. 683.

Með frv. þessu, sem lýtur aðallega að breytingum á lögum um verðbréfaviðskipti, eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum sem taldar eru hæfa betur þeim aðstæðum á verðbréfamarkaði sem nú ríkja. Helstu breytingar sem frv. felur í sér eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til að starfsmenn fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og lánastofnana, sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með verðbréf, skuli hafa staðist nám í verðbréfamiðlun. Í dag nær þessi krafa einungis til framkvæmdastjóra fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og daglegra stjórnenda rekstrarfélaga verðbréfasjóða. Verði þetta frv. að lögum mun krafa um nám í verðbréfamiðlun ná til allra starfsmanna sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með verðbréf í viðskiptabönkum, sparisjóðum, öðrum lánastofnunum og fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu.

Í öðru lagi er lagt til að aðskilnaður einstakra starfssviða fyrirtækja í verðbréfaþjónustu verði gerður skýrari og verklagsreglur um eigin viðskipti þeirra sem og eigenda þeirra, stjórnenda, starfsmanna og maka ítarlegri. Í frv. er lagt til að Fjármálaeftirlitið staðfesti reglur til fyrirtækjanna sem miði að því að tryggja þennan aðskilnað og skulu þær vera aðgengilegar viðskiptamönnum.

Þá er lagt til að bætt verði við ákvæðum um verklagsreglur um eigin viðskipti fyrirtækja og starfsmanna þeirra og ákvæði sem tryggi betur stöðu Fjármálaeftirlitsins við setningu og eftirfylgni reglnanna.

Í þriðja lagi er lagt til að krafa um starfsábyrgðartryggingu verði látin ná til verðbréfamiðlana en ekki verðbréfafyrirtækja. Það fyrirkomulag er í samræmi við starfsábyrgðatryggingar í vátryggingastarfsemi þar sem vátryggingamiðlurum er gert skylt að afla sér starfsábyrgðartryggingar en ekki vátryggingafélögum. Að síðustu er lagt til að ákvæði verði sett um samningsbundið uppgjör í samræmi við tilskipun ESB þar að lútandi. Auknar eru heimildir yfirvalda til að viðurkenna að ákveðin uppgjör er varða samninga sem tengjast vöxtum og gjaldeyri dragi úr áhættu við útreikning eiginfjárhlutfalls. Ég mun á eftir gera nánari grein fyrir fyrstu tveimur breytingunum, þ.e. menntunarkröfum til starfsmannafyrirtækja, sem stunda verðbréfaviðskipti, og aðskilnaði einstakra starfssviða fyrirtækja í verðbréfaþjónustu.

Samkvæmt gildandi lögum um verðbréfaviðskipti skulu framkvæmdastjórar fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og daglegir stjórnendur rekstrarfélaga verðbréfasjóða hafa lokið prófi í verðbréfamiðlun. Þessi krafa er hins vegar ekki gerð til stjórnenda annarra fyrirtækja á fjármagnsmarkaði eins og banka, sparisjóða og annarra lánastofnana. Forsendur hæfniskröfunnar voru þær að ráðgjöf um viðskipti á þessu sviði væru vandasöm og þörfnuðust umtalsverðrar þekkingar jafnframt hinni reikningslegu sem hinni lagalegu. Var talið að hagsmunum viðskiptamanna yrði ekki veitt nægileg vernd fyrir hættum á mistökum öðruvísi en að reynt yrði að tryggja að milligöngumaður um viðskiptin fullnægði ákveðnum almennum kröfum m.a. varðandi menntun.

Á þeim tíma sem fyrstu lög um verðbréfaviðskipti voru sett voru fyrirtækin í verðbréfaþjónustu lítil og framkvæmdastjórar þeirra höfðu með höndum flesta ef ekki alla þætti rekstrarins. Af þeim sökum var eðlilegt að hæfniskrafan tæki til þeirra. Undanfarin ár hefur verðbréfamarkaðurinn hins vegar vaxið verulega og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu að sama skapi. Hlutverk framkvæmdastjóra felst nú fyrst og fremst í almennri stjórnun fremur en að stunda og hafa milligöngu um viðskipti á markaði. Í dag er það því almennt ekki framkvæmdastjóri sem stundar hin daglegu viðskipti heldur aðrir starfsmenn fyrirtækisins. Þá er ljóst að þrátt fyrir að framkvæmdastjóri beri ábyrgð á rekstri fyrirtækis sem slíkur er það ekki trygging fyrir því að þekking hans nái út til þeirra starfsmanna sem stunda hin daglegu viðskipti.

[14:45]

Af þessum ástæðum verður að telja að ekki sé nauðsynlegt að gera það að skilyrði fyrir starfsleyfi fyrirtækis í verðbréfaþjónustu að framkvæmdastjóri þess hafi lokið prófi í verðbréfamiðlun. Einnig verður að teljast óeðlileg mismunun að framkvæmdastjórar fyrirtækja í verðbréfaþjónustu þurfi að uppfylla þessi skilyrði umfram framkvæmdastjóra annarra fyrirtækja á fjármagnsmarkaði. Það er hins vegar í samræmi við upphaflegan tilgang reglnanna og stuðlar að auknu öryggi í verðbréfaviðskiptum að gera slíkar kröfur til þeirra starfsmanna fyrirtækja í verðbréfaþjónustu sem hafa daglega umsjón með starfsemi í tengslum við viðskipti með verðbréf.

Í samræmi við þetta er sú breyting lögð til í frv. þessu að þeir starfsmenn fyrirtækis í verðbréfaþjónustu sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með verðbréf skv. 8. og 9. gr. laganna skuli hafa lokið prófi í verðbréfamiðlun. Jafnframt er fallið frá þessari almennu kröfu varðandi framkvæmdastjóra fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Engu að síður verður að telja líklegt að í flestum tilfellum sé skipulag fyrirtækjanna þannig að eðlilegt sé að framkvæmdastjórinn hafi lokið verðbréfamiðlunarprófi, samanber athugasemdir við 3. gr. frv. Í frv. er gert ráð fyrir að fyrirtækin tilkynni Fjármálaeftirlitinu um þá starfsmenn sem skulu uppfylla þetta skilyrði.

Verði frumvarpið að lögum mun krafa um próf í verðbréfamiðlun ekki einungis ná til fyrirtækja í verðbréfaþjónustu heldur einnig til viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana. Það kemur til af því að um verðbréfaviðskipti þeirra gilda eftir því sem við getur átt ákvæði laga um verðbréfaviðskipti, sbr. 44. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, og 8. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Fyrrgreind krafa er áfram gerð til daglegra stjórnenda rekstrarfélaga verðbréfasjóða.

Próf og námskeið í verðbréfamiðlun hafa verið haldin hér á landi í um áratug. Mikil eftirspurn hefur verið síðari ár eftir þessu námi og hefur þátttaka í prófum aukist gífurlega. Nú hafa um 120 manns lokið prófi og má reikna með að sú tala eigi eftir að a.m.k. tvöfaldast á næstu tveimur árum. Áhugi á prófinu gefur til kynna að námsefnið endurspegli vel þarfir markaðarins og fjármálafyrirtæki telji það þjóna hagsmunum sínum að starfsmenn sæki námskeið og ljúki prófi, þrátt fyrir að tiltölulega fáir þurfi í raun á þeim starfsréttindum að halda sem prófið veitir. Þessi mikli áhugi sem hér hefur verið lýst er mjög jákvæður og mikilvægt er fyrir þróun íslensks verðbréfamarkaðar að nám í verðbréfamiðlun styrkist enn frekar. Fyrirhuguðum breytingum á lögum um verðbréfaviðskipti er ætlað að stuðla að því.

Ein af meginstoðum verðbréfaviðskiptalaganna er 15. gr. sem kveður á um þá skyldu sem lögð er á fyrirtæki í verðbréfaþjónustu að gæta óhlutdrægni í viðskiptum. Viðskiptamaður fyrirtækisins skal njóta þess verðs og annarra skilmála sem almennt tíðkast á markaði milli óskyldra aðila.

Ein af meginstoðum verðbréfaviðskiptalaganna er 15. gr. sem kveður á um þá skyldu sem lögð er á fyrirtæki í verðbréfaþjónustu að gæta óhlutdrægni í viðskiptum. Viðskiptamaður fyrirtækisins skal njóta þess verðs og annarra skilmála sem almennt tíðkast á markaði milli óskyldra aðila.

Verðbréfafyrirtæki sinna margvíslegri þjónustu skv. 8. gr. laganna. Þau geta svo dæmi sé tekið stýrt eignasafni viðskiptavina sinna, sinnt móttöku og miðlun fyrirmæla frá viðskiptavinum, stundað viðskipti með verðbréf fyrir eigin reikning og stundað ráðgjöf og greiningu. Þar sem þetta fer allt fram innan veggja sama fyrirtækis er hætta á hagsmunaárekstrum ávallt fyrir hendi, t.d. þegar verðbréfafyrirtæki á í viðskiptum fyrir eigin reikning við viðskiptamenn sína. Brugðist er við þessu með kröfu um aðskilnað einstakra starfssviða. Hvert starfssvið skal vera sjálfstætt í störfum sínum og traustir veggir, eða svokallaðir kínamúrar, skilja þau að.

Sé aðskilnaðar ekki gætt er sá möguleiki fyrir hendi að árekstrar verði á milli hagsmuna og fyrirtæki glati trausti markaðarins. Grundvöllur starfsemi verðbréfafyrirtækja er að þau njóti trausts almennings og eiga fá fyrirtæki jafnmikið undir því að viðhalda því trausti.

Í frv. er lagt til að ákvæði um aðskilnað einstakra starfssviða verði styrkt enn frekar til að tryggja betur en nú er að komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra í starfsemi fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Það er gert með því að Fjármálaeftirlitið staðfestir reglur fyrirtækjanna sem miða að því að tryggja þennan aðskilnað. Reglurnar skulu vera aðgengilegar viðskiptamönnum.

Jafnframt eru í frv. gerð skýrari ákvæði 21. gr. laganna um reglur um eigin viðskipti félagsins og viðskipti eigenda, stjórnenda, starfsmanna og maka þeirra en náin tengsl eru á milli þeirrar greinar og 15. gr. Samkvæmt gildandi lögum er fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu skylt að setja sér verklagsreglur um tiltekin atriði og skulu þær staðfestar af Fjármálaeftirlitinu. Verklagsreglurnar eru keimlíkar frá fyrirtæki til fyrirtækis enda höfðu Samtök verðbréfafyrirtækja forgöngu um að vinna staðlaðar verklagsreglur fyrir verðbréfafyrirtækin. Það er síðan fyrirtækjanna sjálfra að hafa eftirlit með að reglunum sé fylgt. Engin viðurlagaákvæði eru í reglunum.

Ekki er talið rétt að setja ákvæði í lög um það hvernig viðskiptum eigenda, stjórnenda, starfsmanna og maka þeirra skuli háttað. Hins vegar er lagt til að bætt verði við ákvæðum sem tryggi betur stöðu Fjármálaeftirlitsins við setningu og eftirfylgni þeirra reglna sem fyrirtæki í verðbréfaþjónustu setja. Þannig verði kveðið á um að fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skuli gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir frávikum frá ákvæðum reglnanna og að þær skuli vera aðgengilegar viðskiptamönnum.

Herra forseti. að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til efh.- og viðskn. og 2. umr.