Verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 14:56:50 (5526)

2000-03-21 14:56:50# 125. lþ. 83.14 fundur 420. mál: #A verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir# (menntunarkröfur, tryggingar, afleiðusamningar o.fl.) frv. 99/2000, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[14:56]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðherra að vissulega er frv. sem hér liggur fyrir til bóta. Ég held að það liggi nú í hlutarins eðli, þegar verið er að feta sig áfram á þessari slóð, að þá sé frv. sem sett er fram og unnið í hinu ágæta ráðuneyti viðskrn. til bóta.

Hins vegar vil ég benda á rök hæstv. viðskrh. Hún sagði eitthvað á þá leið að við yrðum að horfa til þess að okkar markaður eða okkar verðbréfamarkaður væri um 10 ára á meðan Bandaríkjamarkaðurinn væri um 100 ára. Ég held einmitt að það séu rökin fyrir því að skoða betur þær reglur sem þar gilda. Það er alveg ástæðulaust að brölta þetta áfram og reyna að finna upp hjólið þegar það hefur fyrir löngu verið fundið upp.

Ég held, virðulegi forseti, ef líkja mætti þessu við bílaframleiðsluna, að ástæðulaust sé fyrir okkur að framleiða árið 2000 bíla sem voru kannski í tísku 1910. Ég held að við eigum að nýta okkur þá reynslu sem þarna er til orðin, þá þekkingu og það regluverk sem Bandaríkjamenn hafa komið sér upp til þess að viðskipti á markaði geti gengið eðlilega fyrir sig og verðmyndun á markaði þar sem verslað er með verðbréf sé eðlileg.

Þess vegna, virðulegi forseti, vil ég einmitt nota röksemdafærslu hæstv. viðskrh. til að benda á að sennilega er miklu skynsamlegra að leita í smiðju þeirra sem þekkja þetta hvað best en reyna að finna upp hjólið í þessum efnum.