Verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 14:58:51 (5527)

2000-03-21 14:58:51# 125. lþ. 83.14 fundur 420. mál: #A verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir# (menntunarkröfur, tryggingar, afleiðusamningar o.fl.) frv. 99/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[14:58]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég verð að segja að ég varð fyrir ákaflega miklum vonbrigðum þegar ég las þetta frv. hæstv. viðskrh. um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti. Ég átti satt að segja von á því, miðað við fyrri yfirlýsingar hæstv. ráðherra, að hér yrði hraustlegar að verki staðið en þetta frv. sýnir. Frv. þetta er ákaflega rýrt í roðinu og tekur að mjög litlu leyti á þeim vandamálum sem komið hafa upp á verðbréfamarkaðnum að undanförnu. Þess vegna á ég von á því að fyrir efh.- og viðskn. liggi mikil vinna við að taka frv. og gera það eilítið beittara en hæstv. ráðherra leggur til.

[15:00]

Við vitum að ólögleg innherjaviðskipti og brot á verklagsreglum eru orðin allt of algeng á fjármálamarkaðnum. Það sýnir svo að ekki verður um villst að verulega þarf að herða á öllum ákvæðum til að koma í veg fyrir brot á reglum og ólögleg innherjaviðskipti. Fjármálaeftirlitið þarf að fá þann lagagrundvöll sem til þarf til að fylgja eftir úrbótum þegar slíkt kemur upp. Ég held að allir hljóti að taka undir að það gengur gegn öllu siðferði og lögum að starfsmenn og stjórnendur fyrirtækja taki til sín skjótfenginn eða óeðlilegan hagnað í skjóli trúnaðarupplýsinga, sem áhrif hafa á verðmæti hlutabréfa, sem þeir fjármagna jafnvel með lánveitingum og hugsanlega sérkjörum til kaupanna frá viðkomandi fyrirtæki. Mér finnst í frv. ansi lítið tekið á þessu atriði sem mikið hefur verið gagnrýnt í umræðunni.

Það er allt of algengt, eins og hæstv. viðskrh. hefur reyndar vikið að í umræðunni, að gera þurfi athugasemdir við verklagsreglur og framkvæmd þeirra hjá fjármálafyrirtækjum. Þess er skemmst að minnast að Fjármálaeftirlitið gerði athugasemdir við framkvæmd verklagsreglna hjá sex fyrirtækjum, m.a. Búnaðarbankanum. Ég held að það sé nokkuð ljóst að of algengt er að leki á trúnaðarupplýsingum hafi viðgengist sem síðan hafi leitt til óeðlilegra viðskipta með hlutabréf. Traust er fjármálamarkaði auðvitað afar mikilvægt eins og þarf varla að segja hæstv. ráðherra, en það hefur beðið hnekki. Mikilvægt er að þar séu vönduð vinnubrögð þannig að brot á lögum og reglum grafi ekki undan trausti fyrirtækjanna.

Ég fagnaði því mjög þegar hæstv. ráðherra boðaði að hún mundi bera fram frv. til laga um verðbréfaviðskipti. Ég taldi satt að segja borðleggjandi að hæstv. ráðherra mundi taka á þessum málum. Fyrsta verk hæstv. ráðherra í stóli viðskrh. var einmitt að taka mjög hart á því þegar fram kom í fjölmiðlum að fjármálafyrirtæki hefðu brotið verklagsreglur. Þá boðaði ráðherrann breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti til að taka á þessum málum.

Hvað er það sem gagnrýnt hefur verið, m.a. í fjölmiðlum, að því er þetta varðar? Gagnrýnd hefur verið hugsanlega betri staða innanbúðarmanna í verðbréfafyrirtækjum en viðskiptamanna þess, hætta á hagsmunaárekstrum innan verðbréfafyrirtækjanna sjálfra, verðbréfafyrirtækja sem bæði stýra eignasöfnun viðskiptavina og eiga einnig viðskipti með verðbréf fyrir eigin reikning. Á þessu er ekkert tekið í frv. hæstv. ráðherra né þá viðskiptum starfsmanna með óskráð verðbréf og þátttöku starfsmanna í útboðum sem fyrirtæki hefur umsjón með. Ég sé ekki að hæstv. ráðherra taki neitt á þessum brýnu málum í frv. og raunar er langur vegur þar frá.

Það er vissulega jákvætt í frv., þ.e. eitt meginmarkmið þess, að verðbréfafyrirtæki gæti óhlutdrægni í viðskiptum og komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra með því skilja að starfssvið fyrirtækjanna og láta Fjármálaeftirlitið staðfesta reglur þar að lútandi sem viðskiptamenn eiga að geta kynnt sér. Á því er tekið í þessu frv. Auðvitað er það einnig til bóta að starfsmenn fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og lánastofnunum sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með verðbréf eigi að hafa staðist próf í verðbréfamiðlun. Þetta er auðvitað sjálfsagt.

Ákvæði sem lúta að innherjaviðskiptum finnast mér hins vegar afar máttlaus og raunar er slakað á eftirliti þar sem lagt er til að verklagsreglur um viðskipti eigenda fyrirtækja í verðbréfaþjónustu verði rýmkaðar frá því sem nú er þannig að þær taki einungis til viðskipta þeirra sem eiga virkan eignarhlut í fyrirtækjum. Það kemur fram í athugasemdum um 8. gr. Þar segir beinlínis, með leyfi forseta:

,,Í fyrsta lagi er lagt til að verklagsreglur um viðskipti eigenda fyrirtækja í verðbréfaþjónustu verði rýmkaðar frá því sem nú er, þannig að þær taki einungis til viðskipta þeirra sem eiga virkan eignarhlut í fyrirtækinu skv. 12. gr. laganna, þ.e. eignarhlutur sem nemur 10% eða meira af eigin fé þess eða atkvæðisrétti. Ástæðan er sú að eftir því sem eigendum lítilla eignarhluta í fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu fjölgar verður nær ókleift að hafa eftirlit með viðskiptum þeirra með þeim hætti sem kveðið er á um í verklagsreglunum.``

Mér finnst hálfgerð uppgjöf hjá hæstv. ráðherra að standa að málum eins og hér er lýst.

Önnur atriði um innherjaviðskipti í þessu frv. eru minni háttar og skipta raunar engu máli. Ég hef allmargar spurningar til hæstv. ráðherra sem ég ætlast til að hún veiti svör við núna við 1. umr. málsins til þess að auðvelda meðferð málsins í efh.- og viðskn. Í frv. er t.d. ekkert að sjá um meðferð trúnaðarupplýsinga og ég spyr hæstv. ráðherra: Er ekki full ástæða til þess miðað við það sem á undan hefur gengið á fjármálamarkaði að taka á meðferð trúnaðarupplýsinga?

Á innherjaviðskiptum er takmarkað tekið eins og ég hef sagt og vantar skýra skilgreiningu á því hverjir eru innherjar. Einnig vantar skýrar verklagsreglur um aðgang starfsmanna sem búa yfir trúnaðarupplýsingum að kaupum á hlutabréfum í fyrirtækjum og þá hvort og hvernig þeir megi sjálfir koma að útboðum á hlutabréfum sem í gangi eru í fyrirtækjum sem þeir vinna hjá. Á að skilyrða að slík kaup starfsmanna megi einungis fara fram á föstu gengi áður en útboð hefst eða eiga þeir að geta keypt meðan útboð er í gangi, sem ég tel óeðlilegt? Þannig var það einmitt í innherjaviðskiptunum í Búnaðarbankanum þegar starfsmenn sem bjuggu yfir trúnaðarupplýsingum um afkomu bankans keyptu á lokastigi útboðs. Í þessu sambandi vitna ég til þess að Verðbréfaþing hefur kveðið upp úr um að það telji að taka eigi á því máli. Það kom fram í yfirlýsingu Verðbréfaþings vegna afkomuviðvörunar Búnaðarbankans sem mikið var í fjölmiðlum. Þingið taldi ekki efni til frekari aðgerða vegna þess hvernig bankinn rækti upplýsingaskyldu sína að þessu sinni en síðan segir, með leyfi forseta:

,,Hins vegar telur Verðbréfaþing, í ljósi umfjöllunar fjölmiðla og annarra um viðskipti innherja með bréf bankans o.fl., að nauðsynlegt sé að setja skýrari ákvæði í lög og reglur um framkvæmd útboða, um viðskipti umsjónaraðila, innherja og starfsmanna með bréf í tengslum við útboð, svo og um viðskipti hlutafélaga með eigin bréf. Það er hagsmunamál allra þátttakenda á verðbréfamarkaði að leikreglur séu skýrar til að þeir sem kappkosta að fylgja þeim þurfi ekki að sæta ásökunum eða tortryggni um óheiðarleg eða óeðlileg vinnubrögð. Þingið mun beita sér fyrir viðræðum við Fjármálaeftirlitið, stjórnvöld og samtök aðila á verðbréfamarkaði um bætta skipan þessara mála.``

Ég spyr: Hafa þessar viðræður átt sér stað milli Verðbréfaþings og viðskrn. varðandi þau atriði sem hér voru nefnd? Þetta eru afar brýn atriði sem snerta beinlínis mál eins og í Búnaðarbankanum, hvernig standa eigi að útboðum þegar starfsmenn taka þátt í þeim. Þetta eru mjög veigamiklar athugasemdir frá Verðbréfaþingi. Ég verð að segja, herra forseti, að ég er hissa á að hæstv. ráðherra hafi ekki tekið á í þessu frv. Ég spyr því sérstaklega um þetta.

Ég vil líka spyrja um það sem hefur verið í umræðunni, þ.e. bann við viðskiptum innherja að liðnum ákveðnum tíma frá birtingu afkomutalna fyrirtækja. Ég man ekki betur en hæstv. ráðherra hafi einmitt tekið undir það í utandagskrárumræðum sem Samfylkingin stóð fyrir um daginn að til greina kæmi að taka upp slíkt ákvæði. Ráðherra nefndi að það mundi án efa minnka tortryggni í garð innherjaviðskipta, þ.e. bann við viðskiptum innherja að liðnum ákveðnum tíma frá birtingu afkomutalna fyrirtækja. Er eitthvað á döfinni hjá hæstv. ráðherra hvað það varðar? Af hverju sér maður þess ekki stað í því frv. sem við ræðum hér?

Þó að ég vitni ekki oft í Verslunarráðið eða tillögur sem þaðan koma þá kom ráðið þó með ákveðnar tillögur varðandi þessi mál, t.d. að skilgreina betur hvaða hópur telst innherjar og hvernig tilkynningaskyldu innherja skuli háttað. Mér fundust athyglisverðar tillögurnar frá Verslunarráði í þessu máli. Það hefur meira að segja komið til tals innan efh.- og viðskn. að betur þurfi að skilgreina hverjir eru innherjar. Á þessu var sem sagt tekið í skýrslu Verslunarráðs Íslands sem birt var nýlega. Um þetta spyr ég líka hæstv. ráðherra.

Ég tel líka að ákvæði vanti um upplýsingagjöf vegna skýldrar eignar. Ég sé ekki að á því sé tekið. Þess er skemmst að minnast þegar eignarhaldsfélag Orca-hópsins neitaði að gefa upplýsingar um hverjir væru eigendur. Á því máli er ekki tekið í þessu frv. Ég get ekki séð það. Við höfum fyrir okkur dæmi hjá þessu eignarhaldsfélagi þar sem neitað var að gefa upplýsingar. Ég sé ekki að á því sé tekið í frv. en í skýrslu Verslunarráðs er einmitt bent á hve mikilvægt sé að taka á því máli. Þar stendur einmitt að ákvæði vanti um upplýsingagjöf vegna skýldrar eignar.

Síðan tel ég ástæðu til að vara við því að rýmka heimildir til viðskipta með óskráð verðbréf. Verðbréfaþing áætlar að 10--20% markaðarins séu viðskipti með óskráð verðbréf. Þeir telja að þau hafi vaxið með viðskiptum á óskráðum bréfum í deCODE-fyrirtækinu sem raskað hafi þessum hlutföllum skráðum verðbréfum í óhag. Það hefur einmitt tengst innherjaviðskiptunum, þ.e. viðskiptum með óskráð hlutabréf og ég sé ekki að á því sé tekið. Um það segir t.d. Verslunarráð, með leyfi forseta, þegar vikið er að nýlegum umræðum um undanþágu frá verklagsreglum verðbréfafyrirtækja vegna viðskipta með óskráð bréf:

,,Reglur sem eru þannig að þörf er á undanþágum skapa varla nægilegan trúverðugleika, jafnvel þótt yfirmanns\-ábyrgð sé skýr. Því er nauðsynlegt að verklagsreglur nái til allra venjulegra tilvika sem upp koma. Hafa ber í huga að starfsmenn fjármálafyrirtækja geta í mörgum tilfellum tengst ýmiss konar rekstri, svo sem fjölskyldurekstri í smáum stíl án þess að slíkt sé til skaða fyrir nokkurn aðila.``

Síðan vil ég ræða ákveðið mál sem tengist þeirri sprengingu sem orðið hefur á gengi hlutabréfa í fjölda fyrirtækja. Sú þróun vekur upp spurningar um hvort gengi hlutabréfa í mörgum fyrirtækjum endurspegli verðmæti fyrirtækjanna, hvort verðmyndun á bréfunum sé eðlileg og hvort ekki sé ástæða til að ætla að þar séu hagsmunaárekstrar. Hvaða áhrif hefur það á gengi eða verðmyndun hlutabréfa þegar um er að ræða gífurlega mikil viðskipti verðbréfafyrirtækjanna sjálfra fyrir eigin reikning? Telur ráðherrann ekki ástæðu til þess að taka á þessu? Þetta er atriði sem mjög sterklega hefur komið fram í efh.- og viðskn. í tenglsum við þessi mál að taka þurfi á og aðilar á verðbréfamarkaðnum hafa einmitt bent á þetta atriði. Er hægt að treysta eðlilegri ráðgjöf verðbréfafyrirtækja við einstaklinga og fyrirtæki standi þau sjálf í miklu braski eða viðskiptum á hlutabréfamarkaðnum? Telur ráðherrann virkilega enga ástæðu til þess að taka á þessu?

Eins og hæstv. ráðherra heyrir hef ég ýmsar athugasemdir við þetta frv. og hafði vænst meira af hæstv. ráðherra miðað við hvað hún kom hressilega fram fyrstu dagana í stóli viðskrh. með alls konar yfirlýsingar um að á þessum málum þyrfti að taka. Miklu fleiri en ég bundu miklar vonir við störf ráðherra að því er þessi mál varðar.

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra, sem tengist innherjaviðskiptum í Búnaðarbankanum, hvort hún telji að viðskiptin sem þar fóru fram nýlega séu að fullu rannsökuð eða hvort málið sé enn til skoðunar í Fjármálaeftirlitinu. Ég vil gjarnan fá einhvern botn í þetta mál. Er Fjármálaeftirlitið enn að skoða það mál eða er að fullu lokið þessu máli varðandi innherjaviðskiptin?

Ég vil líka spyrja um brot á verklagsreglum hjá þessum sex fjármálafyrirtækjum. Hversu umfangsmikil voru þau brot sem þar voru framin? Hefur hæstv. ráðherra látið kanna það eða hyggst ráðherra láta kanna umfang brotanna hjá þessu fyrirtækjum, hve lengi þau hafi viðgengist? Mér finnst oft vanta þegar slík mál koma upp, þegar brotin eru lög um verðbréfaviðskipti eða verklagsreglur, að maður fái botn í þau, hvort þau hafi að fullu verið rannsökuð, hverjar lyktir máls eru o.s.frv. Þess vegna spyr ég um þetta mál nú.

[15:15]

Ég tel líka fulla ástæðu til að spyrja hæstv. ráðherra um mál sem kom upp nýverið og ég hef ekki heldur heyrt að hafi fengist lyktir í en það snertir málefni sem aðalbankastjóri Búnaðarbankans var viðriðinn. Samkvæmt þeim upplýsingum sem komu fram á hann að hafa gefið Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum vísvitandi rangar upplýsingar vegna athugunar sem Fjármálaeftirlitið var að gera að ósk viðskrn. á viðskiptum bankans við tiltekinn fyrrverandi viðskiptamann bankans. Ég er að nefna mál sem maður hefur ekki fengið neina niðurstöðu í. Er athuguninni lokið? Hefur hæstv. viðskrh. fengið niðurstöðu í málinu?

Þetta mál snerist um rangar upplýsingar eða misræmi í upplýsingum sem Fjármálaeftirlitið fékk út af tilteknu máli en þær snertu rangar upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið á að hafa fengið um samkomulag sem Búnaðarbankinn gerði á sínum tíma við Sparisjóð Suður-Þingeyinga. Samningurinn á milli þessara aðila á að hafa hljóðað upp á að Búnaðarbankinn og Sparisjóður Suður-Þingeyinga skiptu söluandvirði á hlutabréfum í togaranum Hólmadrangi sem fór í nauðungaruppboð vegna gjaldþrotamála mannsins. Hann taldi að bréfin hefðu farið langt undir markaðsverði. Þetta snerti upplýsingar sem einn fjölmiðill hafði óskað eftir frá bankanum sem voru á þann veg að Búnaðarbankinn hefði ekki undir höndum neinar upplýsingar að því er það mál varðaði og síðan þegar sá maður sem tengdist þessu máli leitaði eftir sömu upplýsingum í Búnaðarbankanum um það mál fékk hann allt aðrar upplýsingar. Þess vegna finnst mér ástæða til að halda því til haga í umræðunni hvort lyktir séu komnar í málið.

Ég tel einnig rétt, herra forseti, að nefna að Samfylkingin hefur flutt nokkur mál á þinginu sem tengjast breytingum á leikreglum á fjármálamarkaði, bæði á samkeppnislögum og á lögum um fjármálaeftirlit, sem við ræðum væntanlega síðar í dag. En ég vil spyrja í tengslum við þetta frv. um verðbréfaviðskipti, af því mér finnst það tengjast því, um skoðun hæstv. ráðherra á till. til þál. sem liggur fyrir efh.- og viðskn. um setningu siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði. Það var í þá veru að fela viðskrh. að sjá um að allar stofnanir og fyrirtæki á fjármálamarkaðnum setji sér sérstakar siðareglur í viðskiptum. Ég tel afar mikilvægt að á þessu sé tekið og þetta nái til allra stofnana sem sýsla með fjármagn og á ég þá t.d. líka við lífeyrissjóði, vátryggingafélög og fleiri aðila, ekki bara verðbréfafyrirtæki.

Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er að ljúka. En ég hef lagt fjölda fyrirspurna fyrir hæstv. ráðherra sem ég vona að hún svari og við fáum þá skýrari upplýsingar um málið áður en það gengur til hv. efh.- og viðskn.