Verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 15:37:32 (5531)

2000-03-21 15:37:32# 125. lþ. 83.14 fundur 420. mál: #A verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir# (menntunarkröfur, tryggingar, afleiðusamningar o.fl.) frv. 99/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[15:37]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þessi síðasta athugasemd hæstv. ráðherra er fráleit, að verið sé að drepa niður verðbréfamarkaðinn þó að spurt sé eðlilegra spurninga sem snerta tiltekin mál og innherjaviðskipti sem upp hafa komið og margir hafa gert athugasemdir við og telja að herða þurfi lög og reglur út af. Það er furðulegt að hæstv. viðskrh. skuli gera slíka athugasemd úr þessum ræðustól þó að hér sé haldið uppi vörn fyrir því að hafðar séu eðlilegar og sanngjarnar leikreglur á verðbréfamarkaðnum.

En hæstv. ráðherra getur aldrei svarað þeirri spurningu, sem er mjög einföld, hvort fundur hafi farið fram milli ráðuneytisins og Verðbréfaþings um þessi tilteknu atriði sem Verðbréfaþing er að kalla eftir að verði leiðréttar. Það er ekki nægjanlegt að vísa í kínamúra sem taka alls ekki á öllum þeim málum sem ég hef verið uppi með eða einhver almenn ákvæði í frv. sem varða útboð og almenn útboð, vegna þess að ég sé ekki að þau snerti endilega viðskipti innherja og það sem Verðbréfaþing er að tala um er þann þáttinn varðar.

Ég bið því hæstv. ráðherra að svara því hvort samtöl hafi farið fram við Verðbréfaþing um þau atriði sem Verðbréfaþing er að kalla eftir og hvort ráðherrann muni þá leita eftir slíkum fundi til þess að taka á þeim atriðum sem Verðbréfaþing er að biðja um leiðréttingu á vegna þess að mjög mikilvægt er fyrir framvindu málsins í efh.- og viðskn. að þetta liggi fyrir.

Það sem verið er að taka á í frv. er aðskilnaður einstakra starfssviða, sem vissulega er mikilvægt, próf í verðbréfamiðlun, starfsábyrgðartryggingu og afleiðusamninga. Þetta er það sem frv. tekur á. Það sneiðir fram hjá því mikilvæga sem hefur þó verið fjallað um í fjölmiðlum og víðar og í efh.- og viðskn., þ.e. að herða miklu meira á lögum um verðbréfaviðskipti en ráðherra hefur gert.

Og ég spyr í lokin hvort samtöl hafi farið fram milli Verðbréfaþings og ráðuneytisins.